Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, utan­ríkis- og þróunar­sam­vinnu­ráð­herra, er með Co­vid-19.

Frá þessu greinir hún á Face­book-síðu sinni.

Í færslu Þórdísar Kolbrúnar kemur fram að allir fjölskyldumeðlimir hennar hafi greinst með Covid-19, þau séu öll einkennalaus og fullfrísk.

Að sögn Þórdísar Kolbrúnar er fjölskyldan hálfnuð með einangrun sína. Þau hafi ætlað að verja jólunum með ömmum og öfum en eftir að fjölskyldumeðlimir fóru að greinast með Covid-19 hafi þau verið fjögur saman í einangrun.

„Skjátími hefur verið langt umfram almennar reglur á heimilinu. Vinnufundir vegna Covid eru fjarfundir og sem betur fer fengu allir nýjar bækur í jólagjöf og möndlugjöfin var Partý Skellur svo það er hlegið yfir því – og kettinum Ronju sem flækir sig í kastölunum sem við byggjum,“ segir Þórdís Kolbrún meðal annars í færslu sinni.

Þórdís Kolbrún segist standa við afstöðu sína um að mannréttindi megi ekki skerða til langframa vegna álags á heilbrigðiskerfið. Vísar hún þar til pistils sem hún skrifaði og birtist á Kjarnanum á jóladag.

„Í umræðunni í dag sé ég að hjartalæknirinn frægi, Tómas Guðbjartsson, snýr út úr orðum mínum í pistli sem ég skrifaði í Kjarnann um jólin.

Í pistlinum sagði ég að mannréttindi mætti ekki skerða til langframa vegna álags á heilbrigðiskerfið. Ég stend innilega og algjörlega við þá afstöðu mína.

Þarna er lykilorðið „til langframa“ - og ég trúi að það geti verið ágæt samstaða um það markmið,“ segir Þórdís Kolbrún í færslu sinni.