Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, er gagnrýnin á yfirlýsta innlimun Rússa á fjórum héruðum Úkraínu sem tilkynnt var í dag. Í viðtali við Fréttablaðið fer hún hörðum orðum um atkvæðagreiðslurnar sem haldnar voru af leppstjórnum Rússa á hernámssvæðum sínum í Úkraínu og sagði framkvæmd þeirra „andlýðræðislegar og ómanneskjulegar“.

„Viðbrögð okkar eru mjög skýr og eru í algeru samræmi við viðbrögð lýðræðisríkja, vina- og bandalagsþjóða okkar, og meira að segja ríkja sem hafa sýnt einhvers konar samúð með háttsemi Rússa,“ segir Þórdís. „Okkar sýn og okkar skilaboð eru þau að þessar svokölluðu kosningar og gerviatkvæðagreiðslur séu auðvitað fullkomin þvæla og ekkert mark á þeim takandi.“

„Ég held að hvert okkar hér sem búum á þessu eyríki geti tengt við það að skipti töluvert miklu máli að geta treyst á að landamæri, alþjóðalög og lögsaga séu virt.“

Vladímír Pútín Rússlandsforseti lýsti yfir innlimun Rússlands á fjórum úkraínskum héruðum – Donetsk, Lúhansk, Kherson og Zaporízjzja – á stórviðburði á Rauða torginu í Moskvu í dag. Bandamenn Rússa á hernámssvæðum þeirra í þessum héruðum héldu atkvæðagreiðslur um inngöngu þeirra í Rússneska sambandsríkið um helgina.

Samkvæmt talningum þeirra eiga öll héruðin að hafa samþykkt aðild að Rússlandi með hátt í hundrað prósentum atkvæða en flest ríki heims hafa hafnað atkvæðagreiðslunum og sagt þær ólöglegar og marklausar. Ekkert af héruðunum fjórum er að fullu undir stjórn Rússa og í sumum þeirra hafa Rússar glatað töluverðu landsvæði vegna gagnsóknar Úkraínumanna á undanförnum vikum.

Þórdís segir engar mögulegar sviðsmyndir vera til þar sem hægt hefði verið að viðurkenna eða samþykkja atkvæðagreiðslur sem haldnar væru með þessum hætti. „Ég held að hvert okkar hér sem búum á þessu eyríki geti tengt við það að skipti töluvert miklu máli að geta treyst á að landamæri, alþjóðalög og lögsaga séu virt.“

„Það skiptir öllu máli að talað sé skýrt um það að atkvæðagreiðslurnar séu hvergi viðurkenndar, enda brjóta þær sannarlega gegn alþjóðalögum og framkvæmd þeirra afskaplega andlýðræðisleg og ómanneskjuleg í raun,“ segir Þórdís Kolbrún. „Fyrir utan það að landamæri Úkraínu hafa ekkert breyst, alveg óháð skrípaleik Pútíns og fylgisveina hans í undirritunum og innlimun á þessum svæðum.“

Pútín tilkynnti innlimum héraðanna með pompi og prakt á viðburði á Rauða torginu í dag.
Mynd/EPA

Í ræðu sinni um dag ítrekaði Pútín kjarnorkuhótanir sínar gegn Vesturlöndum og sagði Bandaríkin hafa sett fordæmi fyrir beitingu kjarnavopna í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. „Því miður er enn frekari harka í orðfæri og orðavali bæði hans og annarra innan Rússlands og ofsalega óábyrgt tal um beitingu kjarnavopna,“ segir Þórdís. „Við höfum af þessu vaxandi áhyggjur en ég segi samt að hugur minn er fyrst og fremst hjá þeim sem eru nærri og búa við raunverulega ógn vegna þessarar háttsemi, illsku og ranghugmyndanna sem keyra hann og aðra áfram.“

Í dag bar það jafnframt til tíðinda að Úkraínumenn skiluðu formlegri aðildarumsókn að Atlantshafsbandalaginu og hafa farið fram á flýtimeðferð hennar. Þórdís segir að Ísland styðji almennt að dyr NATO séu opnar fyrir nýjum aðildarríkjum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Vilji Úkraínumanna er alveg skýr og þau hafa sýnt það í verki hvers konar bandamenn þau eru og hvers þau eru megnug í að verjast einu stærsta herveldi heims. En svona lagað þarf að fara í gegnum sinn farveg og við verðum að sjálfsögðu þátttakendur í þeirri meðferð.“