Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fór í sína fyrstu utanlandsferð sem nýr utanríkisráðherra Íslands í dag. Var þar um að ræða fund utanríkisráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem mun standa yfir í Riga í Lettlandi fram á fimmtudaginn.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, var viðstaddur á fundinum ásamt utanríkisráðherrunum. Í opnunarræðu sinni lagði hann áherslu á að bandalagið yrði að verja þau gildi sem lægju því til grundvallar. „Atlantshafsbandalagið var stofnað til að vernda lýðræði, frelsi og réttarríkið. Þessi gildi gera okkur að því sem við erum. Þau eru ekki óþörf.“

Stoltenberg lagði áherslu á að nú til dags reyndu valdboðsstjórnir að grafa undan reglubundnu alþjóðaskipulagi með tölvuárásum og dreifingu áróðurs og falsfrétta. Jafnframt væru hópar innan ríkja bandalagsins sem bæru ekki virðingu fyrir lýðræðislegu skipulagi. Í því samhengi nefndi Stoltenberg árásina á bandaríska þinghúsið.

„Í dag getum við ekki lengur tekið friði okkar og öryggi sem gefnum hlut,“ sagði Stoltenberg. „Rússneska stjórnin hefur verið herská erlendis og kúgandi heima fyrir. Vígbúnaður hennar við landamæri Úkraínu er áhyggjuefni. Á meðan er kínverski kommúnistaflokkurinn að beita efnahagslegu og hernaðarlegu afli sínu til að níðast á öðrum löndum og stýra sinni eigin þjóð.“