Við mynd af Þór­dísi Elvu Þor­valds­dóttur á for­síðu helgar­blaðs Frétta­blaðsins má sjá dæmi um skila­boð sem hún sjálf hefur fengið á Netinu, hún segist vera komin með þykkan skráp og hún sé dug­leg að snúa því upp í grín.

„Al­gengustu hatur­skila­boðin sem ég fæ eru að ég eigi að halda kjafti, svo það er aug­ljóst að margir karlar vilja senda mér lífs­stíls­ráð um að það vanti meiri þögla í­hugun í líf mitt. Sem móðir þriggja ára tví­bura, guð minn góður hvað ég er sam­mála,“ segir hún og skellir upp úr.

Þór­dís tekur dæmi um önnur skila­boð á ensku þar sem sendandinn óskar þess að barmur hennar fari vaxandi: „Still up to your feminist bullshit? Waiting on you to grow some tits!“ Þór­dís lítur niður á nett brjóstin og skelli­hlær: „Við bæði vinur, við bæði.“

„Það er auð­velt að grínast með þetta því ég veit að þetta beinist ekki að mér per­sónu­lega - jafn­vel þó þetta sé skrifað við per­sónu­legar færslur mínar. Ég veit að hvaða kona sem er, sem talar eins og ég og beitir sér með þeim hætti sem ég geri, myndi fá ná­kvæm­lega sömu at­huga­semdir. Þetta snýst ekki um mína per­sónu heldur kerfið sem ég er að ögra með starfi mínu. Hins vegar er ég mann­leg og hef upp­lifað ó­geðs­legar á­rásir sem virki­lega særðu. Ein þeirra náði undir skinnið á mér en þá hafði maður haft fyrir því að finna lýsingu mína á nauðguninni sem ég varð fyrir þegar ég var 16 ára. Hann skrifaði hana alla upp á nýtt og sett sjálfan sig inn í hana, og sagðist þannig ætla að gera það sama við mig. Það var vont því það var svo út­hugsað,“ segir Þór­dís sem segir þó erfitt að koma sér úr jafn­vægi í dag.