Bar­áttu­konan Þór­dís Elva Þor­valds­dóttir sendi leikaranum Magnúsi Scheving opið bréf vegna um­mæla hans um að það kallaðist of­beldi að neita maka sínum um kyn­líf. Um­mæli Magnúsar hafa vakið mikla gagn­rýni og bað leikarinn alla sem hann kynni að hafa sært af­sökunar í yfir­lýsingu í morgun.

Þór­dís bendir í bréfi sínu á að mann­eskjur fæðist með ýmis grund­vallar mann­réttindi. „Að stunda kyn­líf með annarri mann­eskju eru hins vegar ekki mann­réttindi, líkt og þú virðist telja,“ skrifar Þór­dís á Face­book.

„Þvert á móti má færa rök fyrir því að það séu for­réttindi sem fólk á­vinnur sér, með því að öðlast það gagn­kvæma traust og virðingu sem liggur til grund­vallar kyn­lífi.“

Sam­þykki er ferskvara

Að mati Þór­dísar hefur í­þrótta­álfurinn einnig mis­skilið sam­þykki innan ástar­sam­banda. „Sjáðu til, sam­þykki er ferskvara, sem þarf að endur­nýja í hvert skipti sem þess er leitað. Það þykir ekki lengur eðli­legt að líta svo á að þegar fólk gengur í hjóna­band sé þar með að af­sala rétti sínum til þess að á­kveða hve­nær það vill stunda kyn­líf, og eigi að vera til í tuskið hve­nær sem er.“

Ekki sé lengur boð­legt að á­ætla að sam­þykki dugi næstu fimm­tíu árin líkt og niður­suðu­dós. „Þetta úr­elta hugar­far gerði maka­nauðganir lög­legar. Vissir þú að fram til ársins 2007 mátti fella niður refsingu fyrir nauðgun á Ís­landi ef gerandinn og þolandinn gengu í hjóna­band?“ spyr Þór­dís sem furðar sig á lögunum.

Enginn á rétt á kyn­lífi

„Sann­leikurinn er sá að enginn á rétt á kyn­lífi. Hvorki frá maka sínum, né öðrum. Óháð því hvort fólk sé ný­búið að kynnast eða eigi ára­tuga ástar­sam­band að baki. Óháð því hvort það hafi lýst yfir á­huga á kyn­lífi áður, eða ekki.“

Þór­dís í­trekar að það sé ekki of­beldi að neita maka sínum um kyn­líf. „Það er hins vegar of­beldi að krefja maka sinn um kyn­líf, og það er bein­línis ó­lög­legt að fá ekki sam­þykki fyrir kyn­ferðis­legu at­hæfi.“

Sam­þykki með heilum hug

Þá sé einungis hægt að veita sam­þykki með heilum hug og teljist það ekki gilt sé það knúið fram með suði, fýlu­stjórnun eða peninga­greiðslum. „Þá er verknaðurinn ekki lengur kyn­líf, heldur lög­brot. Svo ein­falt er það.“

Undir­staða nauðgunar­menningar að mati Þór­dísar er ein­mitt sá mis­skilningur að karlar eigi rétt á kyn­lífi. „Í dag þykja úr­elt við­horf bæði sveitt og takt­laus, en sem betur fer hefur lög­gjafar­valdið og þjóð­fé­lags­um­ræðan sýnt að það er al­mennur vilji í sam­fé­laginu til að ná ‘essu.“