Þór­dís Elva Þor­valds­dóttir hefur verið á­berandi í í­trekuðum #MeT­oo byltingum hér á landi en sjálf byrjaði hún að tala um þessi mál þegar fáir voru að því.

„Mér finnst ég ekkert voða­lega gömul en ég var þó fyrsta konan til að segja frá því opin­ber­lega að hafa orðið fyrir kyn­ferðis­of­beldi í jafningja­sam­bandi, undir nafni og mynd,“ segir hún í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins.

Þór­dís sagði frá í fyrstu bók sinni Á manna­máli, sem kom út fyrir 12 árum síðan. „Á þessum tíma nafn­greindi ég ekki gerandann og var hyllt sem hetja. Það er ekki fyrr en konur nafn­greina ger­endur að þær eru brenndar á báli,“ segir hún.

Árið 2017 gaf Þór­dís út um­deilda bók, Handan fyrir­gefningar sem kom sam­tímis út í fimm löndum. Bókina skrifaði hún á­samt Ástralanum Tom Stranger sem var kærasti hennar á ung­lings­árum og sá sem hún talaði fyrst um nafn­laust í fyrri bókinni sinni: Sá sem braut á henni í sam­bandi öllum þessum árum áður.

Bókin var þannig sam­vinnu­verk­efni geranda og brota­þola og braut blað í leið til upp­gjörs og sátta. „Þá urðu læti. Jesús góður urðu læti,“ segir hún og hlær. „Ég þekki slaufunar­menningu alveg á eigin skinni enda var ég þarna sökuð um að vera geranda­með­virk. Við Tom vorum að reyna að koma með mót­vægi sem kallað hafði verið eftir lengi, að karl­maður sem hafði gerst sekur um að beita of­beldi, tæki á­byrgð og sýndi þar með hvar skömmin liggur. Um leið fékk ég tæki­færi til að skila honum á­byrgðinni og skömminni og gera það opin­ber­lega.

Þarna kom Tom fram með orð­ræðu sem vantar sár­lega, þar sem gerandi skorast hvergi undan, dregur ekki úr verknaðinum og fegrar hann ekki neitt. Hann axlar heils­hugar á­byrgð á honum og gerir það í sam­ráði við sinn þolanda. Þetta er það sem vantar í dag og veldur þeirri reiði sem við höfum séð í nýjustu #MeT­oo byltingunni þar sem vantar allt sam­ráð við þolandann og til­finningin er sú að gerandinn sé meira að reyna að hvít­þvo sig frekar en axla á­byrgð, eða sé í ein­hvers konar „damage control,“ því ein­hver saga um hann sé farin að leka.“

Þór­dís segist vel hafa vitað að fólk yrði reitt og að hún skilji reiðina vel. „Loks hafði fólk geranda til að beina reiðinni að.“

Hún segist þó ekki fara ofan af því að inn­leggið hafi átt rétt á sér og sé enn mikil­vægt, enda hafi meiri­hluti við­bragðanna verið já­kvæður. „Við náum engum fram­förum nema þeir sem eru rót vandans taki þátt í að upp­ræta hann. Nú er um­ræðan komin á allt annan stað en var þá og enginn heldur því fram að þolandi megi ekki segja frá úr­vinnslu sinni, heldur þvert á móti snýst hún um hve­nær ger­endur eigi aftur­kvæmt eins og við höfum séð í mjög um­deildum Kveiks­þáttum. En það er sannar­lega ekki ein­hlítt svar við því og fer mikið eftir brotum,“ segir Þór­dís.