Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur og baráttukona hrekur „rangfærslur í skrifum“ Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur og segir fullyrðingar hennar vega gróflega að hennar starfsheiðri. Greinin birtist á vef Fréttablaðsins og má nálgast hér.

Í umræddri grein, sem Þórdís svarar, skrifar Steinunn Ólína að henni hugnist ekki að kalla Tom Stranger, manninn sem nauðgaði Þórdísi Elvu, nauðgara þótt hann gangist við því sjálfur. „Ekki fremur en ég myndi nefna þjófóttan krakka þjóf langt fram á fullorðinsár,“ skrifaði Steinunn.

„Þú vilt hlífa honum við því að vera kallaður nauðgari og berð hann saman við „þjófóttan smákrakka“, eins og gróft kynferðisofbeldi sé á einhvern hátt sambærilegt við að stela tyggjói úr sjoppu. Þetta er svo fjarstæðukennt að það dæmir sig sjálft,“ svarar Þórdís Elva.

Þórdís Elva og Tom Stranger skrifuðu saman bókina Handan fyrirgefningar og héldu Ted fyrirlestur um efni bókarinnar. Steinunn sakaði Þórdísi Elvu um að markaðssetja ofbeldi og sagðist hafa hreina and­styggð á „þeirri drottnunar­girni og hefndar­fýsn“ sem hún segist birtast í verki Þórdísar.

Þórdís svarar fyrir fullyrðingar Steinunnar, um að aðalatvinna hennar síðastliðin ár hafi verið að markaðssetja á vitundarvakningu um kynferðisofbeldi, og segir auðvelt sé að hrekja umræddar fullyrðingar.

„Ég hef mest starfað við fræðslu, t.d. með gerð forvarnar- og fræðsluefnis fyrir yfirvöld, auk þess að sinna menntun barna um kynfrelsi þeirra og sjálfsákvörðunarrétt. Alvarlegasta rangfærslan í skrifum þínum vegur gróflega að mínum starfsheiðri, en það er þegar þú heldur því fram að í þeirri vinnu hafi ég kennt börnum óljósar skilgreiningar á ofbeldi sem „mun í lengdina mynda gjá á milli kynja, auka hatursorðræðu og sundra fólki,“ að þínu mati. Sem betur fer er auðvelt að hrekja þessa fullyrðingu þína því í öllu mínu fræðsluefni eru orðskýringar, þar sem skilgreiningar á ofbeldi eru byggðar á lögum og/eða nýjustu útgáfu íslensku orðabókarinnar,“ skrifar Þórdís.

Þórdís Elva bendir á þann tvískinnung að Steinunn Ólína fari fram á að ásakendur Atla Rafns Sigurðarsonar leikara stígi fram undir nafni en fordæmi á sama tíma ákvörðun Þórdísar um að stíga fram og draga Tom Stranger til ábyrgðar með opinberum hætti.

„Þannig fordæmir þú bæði brotaþola sem kjósa nafnleynd, auk þeirra sem rjúfa þögnina,“ skrifar Þórdís Elva.

Hægt er að lesa grein Þórdísar Elvu í heild sinni hér.