Það þarf að afla sér miklillar þekkingar og reynslu til þess að búa til hættuleg skotvopn með þrívíddarprentara segir Þórdís Björg Björgvinsdóttir, eigandi 3D Verk, í samtali við Fréttablaðið.

„Að prenta byssu frá A til Ö er ekki möguleiki,“ segir Þórdís sem bendir á að hægt sé að prenta íhluti í byssur, en að önnur inntök þyrfti að afla með öðrum hætti. Hún telur líklegast að einhverjum hlutanna þyrfti að smygla til landsins.

Greint var frá því í gær að lögregla hefði lagt hald á tugi skotvopna, hálf­sjálf­virkra þar á meðal, og þúsundir skotfæra í rannsókn á skipulögðum hryðjuverkum. Fram kom að umrædd vopn hafi verið þrívíddarprentuð, og hafa mennirnir sem grunaðir eru um framleiðsluna verið handteknir.

Paolo Gargiulo, pró­fess­or í heil­brigðis­verk­fræði við Há­skól­ann í Reykja­vík, sagði við Mbl.is í gær að það væri mjög auðvelt að prenta byss­ur með þrívídd­ar­prent­ara, og fullyrti að það væri ekki flóknara en að setja upp iPhone-snjallsíma. Þórdís mótmælir þessum orðum prófessorsins og ítrekar að það þurfi að afla sér mikillar þekkingar til að búa til byssu með prentara. „Þetta er ekki plug and play,“ segir hún.

Þá segir Þórdís að lýsingar lögreglu á tugum skotvopna bendi til þess að um mjög erfitt verk hafi verið að ræða, og telur hún að hver hlutur geti tekið marga klukkutíma í framleiðslu. Því hafi heildarframleiðslan geta tekið vikur, jafnvel mánuði, hafi verið notast við einn eða tvo prentara.

Hún vill meina að ekki sé ástæða fyrir almenning til að hræðast tæknina, eða að fólk fari að prenta byssur í miklu magni. „Fólk þarf ekki að óttast að nágranni þeirra, eða að krakkar fari að prenta byssur.“

Þá bendir hún á þau mörgu vandamál sem þrívíddarprentun hafi og geti leyst, og harmar þann svarta skugga sem málið setur á iðnina. Þrátt fyrir það segir hún þrívíddarprentun ekki vera aðalatriðið.

„Að leggja áherslu á þrívíddarprentun í þessu máli er eins og að segja að maður hafi byggt hús með hamri,“ segir Þórdís og heldur því fram að brotavilji sé lykilatriði. „Þeir myndu finna aðra leið. Maður kemur ekki í veg fyrir einbeittan brotavilja.“

Þórdís telur líklegast að mennirnir hafi notast við plast-þrívíddarprentara, en ekki málm-þrívíddarprentara. Síðarnefnda tækið myndi vissulega bjóða upp á auðveldari framleiðslu á hættulegum vopnum, en slíkir prentarar eru ekki aðgengilegir hverjum sem er og kosta fúlgur fjár. Fyrirtækin sem selja slíka prentara gera til að mynda ferilskoðun á kaupendum sínum. Aftur á móti er hægt að kaupa plast-prentara víðs vegar og kosta þeir talsvert minni pening.