Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, segir að stórpólitísk tíðindi felist í þeim orðum Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra að hún hafi komið því skýrt á framfæri að hún væri andsnúin aðferðafræðinni sem átti að beita í aðdraganda útboðs um sölu á bréfum Íslandsbanka.
Lilja lýsir því í viðtali við Morgunblaðið í dagað hún hafi ekki verið hlynnt þeirri aðferðafræði sem varð ofan á við söluna á bréfunum. Hún hafi viljað almennt útboð en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta.
„Þessum sjónarmiðum mínum kom ég skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins,“ segir Lilja.
Þorbjörg Sigríður bendir á að sem viðskiptaráðherra fari Lilja með samkeppnismál og hagsmuni neytenda.
„Hún situr að auki í ráðherranefnd um efnahagsmál og hefur sem viðskiptaráðherra margsinnis tjáð sig um málefni bankanna, t.d. nýlega um að leggja ætti á bankaskatt vegna ofurhagnaðar bankanna,“ segir Þorbjörg í pistli á Facebook-síðu sinni.
Hún segir að orð Lilju um andstöðu við lokað útboð kalli á að fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherranefndar, sem og bókanir, verði lagðar fram til að varpa ljósi á aðdraganda sölunnar.
„Ef rétt er, og ef ráðherrann er ekki einangruð um þessa afstöðu innan Framsóknarflokksins, var ekki samstaða innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar um þá leið sem fjármálaráðherra valdi. Hagsmunir almennings kalla á að upplýst verði hvernig sú ákvörðun var tekin innan ríkisstjórnarinnar að selja aðeins völdum hópi fjárfesta,“ segir Þorbjörg að lokum.