„Það eru ótrúleg vonbrigði að sjá nafntogað fólk á Íslandi, sem einmitt hefur vald í krafti stöðu sinnar í samfélaginu og menningarlegs auðmagns, taka sér stöðu með skoðunum J.K. Rowling á opinberum vettvangi og segja þær eðlilegar eða skiljanlegar,“ skrifar Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður samtakanna 78 í færslu á Facebook-síðu sinni í gær, eftir að Einar Kárason rithöfundur tók upp hanskann fyrir Rowling um síðustu helgi.

„Það er mjög fín grein í Morgunblaði helgarinnar um rithöfundinn J.K. Rowling og þá slaufunar- og hatursherferð sem hún hefur mátt sæta fyrir að viðra sjónarmið sem í allri sanngirni verða að teljast skiljanleg,“ skrifaði Einar Kárason, þar sem hann vísar í ýmis ummæli J.K. Rowling um transfólk.

Þorbjörg veltir því fyrir sér hvers vegna sumum virðist svíða það sárar að sjá heimsfrægum rithöfundi slaufað en að trans fólk sé myrt í hundraðatali árlega á heimsvísu.

„J.K. Rowling smættar trans fólk niður í kynfæri þeirra, gerir markvisst lítið úr sjálfsákvörðunarrétti þeirra og gefur í skyn að í þeirra hópi sé fjöldi kynferðisbrotamanna. Hún, ásamt fjölda annarra andstæðinga trans réttinda, reynir af öllum mætti að sannfæra fólk um að ef Bretland setur sambærileg lög og hafa verið í gildi hér á Íslandi síðan árið 2019 (og stór hluti reyndar síðan 2012) verði réttindi breskra kvenna fótum troðin og að engu gerð. Hafi það einhvern tímann verið vafamál, þá ætti hverri manneskju nú að vera ljóst að J.K. Rowling er transfóbísk. Það er einfaldlega staðreynd,“ skrifar Þorbjörg og heldur áfram.

Hatursglæpir gegn transfólki aukist

„Það, að við skulum ítrekað ræða skoðanir J.K. Rowling á trans fólki og baráttu þeirra gefur til kynna hversu ótrúlega mikil áhrif hún hefur haft á opinbera umræðu um trans málefni um allan heim.

Nákvæmlega þess vegna gerði fólk kröfur til hennar til að byrja með. Nákvæmlega þess vegna er alvarlegt hvernig hún hefur tjáð sig og heldur áfram að tjá sig.

Viðbrögð margs fólks við skoðunum Rowling - að vilja ekkert með rithöfundinn og verk hennar hafa - eru ekki óeðlileg, ekki frekar en ef hún væri markvisst að reyna að grafa undan mannréttindabaráttu annarra minnihlutahópa. Hatursglæpir gegn trans fólki í Bretlandi hafa aukist á ógnvænlegum hraða á undanförnum árum og réttarbætur eru í fullkomnu pólitísku frosti. Að neita að setja það í samhengi við venjuvæðingu transfóbískrar orðræðu er í besta falli hlægilegt.

Hótanir um ofbeldi í garð Rowling eiga augljóslega ekki rétt á sér og mannréttindasamtök sem berjast fyrir réttindum trans fólks myndu aldrei halda slíku fram. Hins vegar er, eins og áður sagði, ekki óeðlilegt að fólk vilji ekki lesa eða kaupa verkin hennar lengur og styðja hana þar með fjárhagslega. Það eru eðlileg viðbrögð við ranglæti og því sem virðist vera einbeittur illvilji,“ skrifar Þorbjörg og hvetur fólk til að endurhugsa afstöðu sína og sjónarhorn.