Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ’78, gefur kost á sér til að leiða Garðabæjarlistann í Garðabæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta staðfestir Þorbjörg við Fréttablaðið.

Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans, sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann gefur einnig kost á sér til að leiða listann.

Hann hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2018 og var varabæjarfulltrúi frá 2014 - 2018. Hann er kennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

Þorbjörg hefur verið formaður Samtakanna ’78 síðustu þrjú ár og starfar hún sem kennari við Víðistaðaskóla.

Garðabæjarlistinn bauð fyrst fram lista í síðustu kosningum, að listanum stóðu aðilar úr Viðreisn, Samfylkingunni og Vinstri-Grænum. Listinn hlaut 28.1% atkvæða og þrjá fulltrúa í kosningunum. Viðreisn klauf sig úr listanum síðasta haust.

Uppstillingarnefnd Garðabæjarlistans auglýsti í síðustu viku eftir framboðum og tilnefningum á lista, frestur til þess er til og með 20. febrúar. Framboðslistinn verður svo kynntur 13. mars næstkomandi.