Þorbjörg Þorvaldsdóttir mun leiða Garðabæjarlistann í Garðabæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Garðabæjarlistinn var stofnaður í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2018 með aðkomu félagsmanna úr Samfylkingunni, Vinstri græn, Viðreisn, Bjartri framtíð, Pírötum og óháðum. Sara Dögg Svanhildardóttir, núverandi oddviti listans, sækist eftir því að leiða Viðreisn en sá flokkur klauf sig úr Garðabæjarlistanum í desember síðastliðnum.
Listi Garðabæjarlistans verður kynntur í heild sinni 13. mars næstkomandi.
Vill auka fjölbreytni
Þorbjörg segir í samtali við Fréttablaðið að Garðabæjarlistinn muni koma sér saman um helstu stefnumálin þegar nær dregur kosningum.
„Ég sé fyrir mér er að við munum auka fjölbreytni, bæði í húsnæðisuppbyggingu og í ferðamátum, þannig að hægt verið að komast um bæinn öðruvísi en á bíl,“ segir hún.
„Við munum líka leggja áherslu á að Garðabær sýni samfélagslega ábyrgð og tryggi þeim sem þurfa félagslegt húsnæði.“