Þórarinn Tyrfingsson hyggst tilkynna stjórn SÁÁ að hann muni bjóða sig fram til formennsku á nýjan leik. En formaður kjörinn á 48 manna stjórnarfundi, strax eftir aðalfund sem að öllum líkindum mun fara fram þann 30. júní.

„Mér finnst að það þurfi að ná sátt og sameiningu aftur í málin og vill gera mitt til þess,“ segir Þórarinn aðspurður um hvers vegna hann hyggist stíga aftur inn á sviðið, en hann var formaður og yfirlæknir um áratuga skeið. Hann lét af störfum árið 2017 og er nú orðinn 73 ára. „Kosturinn við mig er sá að ég verð ekki lengi,“ segir hann.

Mikil ólga hefur verið innan SÁÁ á þessu ári sem náði ákveðnum hápunkti þegar Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir, og nokkrir stjórnarmenn sögðu störfum sínum lausum. Var talið að stjórnin hefði gengið inn á meðferðarstarfið með uppsögnum sálfræðinga spítalans. Voru uppsagnirnar dregnar til baka og Valgerður hefur snúið aftur. Enn kraumar óánægja starfsfólks undir niðri og litið er til aðalfundarins nú í sumar til þess að svara spurningum varðandi framtíðina.

Þórarinn segir að hann muni aðeins gera breytingar í samráði við starfsfólk og félaga í SÁÁ. „Það vita allir hvað ég stend fyrir. Ég vil frekar láta verkin tala og fá fólk með mér,“ segir hann. „Þetta eru stór samtök, málefnin mikilvægt og þarf að gæta að einingu og trúverðugleika.“

Aðspurður um hvort að fólk geti treyst því að meðferðarstarfið verði aðskilið frá ákvörðunum stjórnar með hann sem formann segir hann svo vera. Það sé meitlað í lög félagsins og ráðningarsamningi.

„Ég tel að fjölmiðlaumræðan að undanförnu hafi ekki verið okkur til framdráttar. En SÁÁ hefur sótt sífellt fram og aukið þjónustu við áfengissjúklinga og gætt þess að vera í fremstu röð hvað fagleg málefni snertir,“ segir Þórainn. „Það er gott starfsfólk sem ég geri ráð fyrir að muni halda því góða starfi áfram, hvað meðferðarstarfið varðar. Ég á líka von á að við getum eflt félagastarfið og talað inn í þjóðfélagið og bindindissamfélagið um að hjálpast að.“

Líkt og Arnþór Jónsson er nú bæði formaður 48 manna stjórnarinnar og framkvæmdastjórnar, gerir Þórarinn ráð fyrir að sinna báðum stöðum verði hann kjörinn.