Þóra Einarsdóttir söngkona mun áfrýja sýknudómi í máli hennar gegn Íslensku óperunni til Landsréttar. Óperan var sýknuð af kröfu hennar um vangoldin laun vegna uppsetningar á Brúðkaupi Fígarós árið 2019.

Dómurinn hefur vakið mikla athygli sérstaklega í ljósi þess að Óperan vitnaði í samninga Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) í samningum við söngvara sem komu fram í óperunni en stóð svo ekki við þá.

„Málið hefur fordæmisgildi fyrir aðra listamenn og íslenskan vinnumarkað í heild sinni,“ segir Þóra og stéttarfélag hennar FÍH stendur þétt við bakið á henni og telur jafnframt brýnt um að fá dóminn endurskoðaðan.

Álagið á æfingum fyrir Brúðkaup Fígarós var rosalegt og hneig Þóra niður á æfingu skömmu fyrir frumsýningu.
Mynd: Íslenska óperan

Alvarleg tíðindi fyrir allt listafólk

Er það mat hennar, BÍL, FÍH og lögmanna þeirra að dómurinn sé rangur í öllum meginatriðum og gangi þvert á þá lögfestu meginreglu vinnuréttar að samningar um lakari kjör en kveðið er á um í kjarasamningum séu að engu hafandi. Dómurinn telji með sýknudóminum að allan vafa um hvað greiða skuli samkvæmt samningum skuli túlka listamanninum í óhag.

„Í honum felast alvarleg tíðindi fyrir allt listafólk sem semur um kaup sín og kjör fyrir einstök verkefni við listastofnanir sem m.a. njóta opinbers fjárframlags. Í dóminum kemur fram að þrátt fyrir gildandi kjarasamninga milli stéttarfélaga og listastofnana sé heimilt að greiða listamönnum minna en lágmarkskjör samkvæmt gildandi kjarasamningum.“

„Verði niðurstöðunni ekki breytt munu listamenn ekki lengur njóta þeirra lágmarksréttinda sem fram koma í kjarasamningum.“

Viðvarandi vandamál á óperuvettvangi

Sýknudómurinn var dropinn sem fyllti mælinn og í kjölfarið lýstu klassískir söngvarar á Íslandi yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra. Segja þau vandamál hafa verið viðvarandi lengi á óperuvettvangi á Íslandi. Söngvarar hafa ekki þorað að stíga fram hingað til af ótta við að komast á svartan lista.

Óperustjóri segist vilja setjast niður með söngvurum til ræða samningargerðir í framtíðinni en söngvarar segja traustið farið eftir að óperustjóri virti ekki samning FÍH. Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH, sagði í samtali við Fréttablaðið að vandamálið væri ekki að fá Íslensku óperuna til að setjast niður og gera nýjan samning, heldur að fá Óperuna til að standa við gerðan samning.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri.

Þóra segir dóminn teka fleyg í samstöðu listafólks sem það hefur leitast við að skapa með því að nýta lagalegan rétt sinn til að stofna stéttarfélög til að semja um lágmarkskjör félagsmanna. Listastofnanir séu í yfirburðaaðstöðu þegar kemur að því að semja um endurgjald við listamenn.

„Verði niðurstöðunni ekki breytt munu listamenn ekki lengur njóta þeirra lágmarksréttinda sem fram koma í kjarasamningum FÍH sem Íslenska óperan og aðrar listastofnanir hafa skuldbundið sig til að virða,“ segir Þóra.

„Það er grundvallarregla á Íslandi að kjarasamningar sem stéttarfélög hafa gert við stofnanir um lágmarkskjör séu virtir. Sú regla hefur verið óumdeild á íslenskum vinnumarkaði í tugi ára. Óhjákvæmilegt er að fá úr því skorið fyrir æðri dómstól hvort þessi réttur sé enn til staðar eða hvort hann hafi verið afnuminn. “

Lilja Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra hefur enn ekki tjáð sig opinberlega þrátt fyrir að sjö fagfélög hafa fundað með henni og kvartað ítrekað undan aðfinnsluverðra stjórnarhátta Íslensku óperunnar.