Leit að nýjum formanni SÁÁ stendur yfir. Nýr formaður verður kosinn fljótlega en ekki er búið að boða til aðalfundar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem situr í aðalstjórn SÁÁ, staðfestir að rætt hafi verið við hana um að gefa kost á sér sem formaður eftir að Einar Hermannsson sagði af sér í síðustu viku vegna hneykslismáls.

„Ég er að hugsa mig um, þetta er stórt og mikið verkefni,“ segir hún.

Þóra Kristín er fyrrverandi fréttamaður, fréttastjóri og ritstjóri og núverandi upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar. Hún hefur víðtæka reynslu af félagsmálum, meðal annars sem varaformaður og formaður Blaðamannafélags Íslands.