Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, hefur kært niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra til Landsréttar í máli tengdu Páli Steingrímssyni, skipstjóra Samherja.

Þetta staðfestir Þóra í samtali við Fréttablaðið.

Héraðsdómur hafnaði kröfu hennar um að Páley Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Akureyri, og Eyþóri Þorbergssyni, staðgengli lögreglustjóra, ásamt öðrum starfsmönnum embættisins yrði vikið úr sæti við rannsókn á meintum lögbrotum fjögurra blaðamanna í tengslum við símagögn Páls.

Þóra höfðaði málið á grunni rannsóknar á broti gegn friðhelgi einkalífs Páls en henni ásamt þremur örðum blaðamönnum var gefin réttarstaða sakbornings við rannsókn málsins.

Blaðamönnunum var tilkynnt 14. febrúar að þeir hefðu réttarstöðu sakbornings við rannsóknina og voru þeir boðaðir í skýrslutöku af því tilefni.

Einn þeirra, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni, krafðist úrskurðar dómara um hvort heimilt væri að boða hann til skýrslutöku vegna málsins.

Fór málið gegnum dómstigin þrjú en því var að lokum vísað frá dómi í Hæstarétti þann 16. mars síðastliðinn.

Eftir dóm Hæstaréttar í máli Aðalsteins hefði lögreglu ekki verið neitt að vanbúnaði að boða blaðamennina til yfirheyrslna hefði ekki verið fyrir nýja kröfu annars blaðamanns úr hópi sakborninga vegna meints vanhæfis.

Héraðsdómur hafnaði sem fyrr segir kröfu Þóru sem nú hefur kært þá niðurstöðu til Landsréttar.

Berglind Svavarsdóttir, lögmaður Þóru, segir niðurstöðu vegna kærunnar til Landsréttar að vænta fljótlega.