Þóra Arnórs­dóttir hefur fyllt alla skápa af mat á heimili sínu á Ítalíu, vegna kóróna­veirunnar svo­kölluðu. Hún greinir frá þessu í færslu á Face­book síðu sinni en segir í sam­tali við Frétta­blaðið að fjöl­skyldan sé ekki að fara á límingunum vegna málsins, hún sé þvert á móti salla­ró­leg.

Þóra flutti til Ítalíu á­samt eigin­manni sínum, Svavari Hall­dórs­syni, og börnunum þeirra þremur um mitt síðasta ár. Fjöldi sýktra ein­stak­linga af CO­VID-19 veirunni hefur marg­faldast á Ítalíu undan­farna daga og er nú kominn upp í 132. Þá eru tveir látnir af völdum veirunnar og er um að ræða fyrsta landið í Evrópu þar sem ekki er hægt að rekja dauðs­föllin til Kína.

Þóra greinir frá stöðu mála á Face­book síðu sinni. „Nú þegar er búið að loka öllum skólum hér næstu vikuna vegna CO­VID-19, þá krafðist vin­kona mín þess að ég færi beina leið í Mer­catò Big og birgði heimilið upp því hún er viss um að bráðum verði sett á út­göngu­bann. Við Nína hlýddum möglunar­laust, hér mun enginn svelta!“

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Þóra að fjöl­skyldan sé salla­ró­leg. Þau ætla sér að ó­breyttu í skíði í Limone á þriðju­daginn. Það sama gildi þó ekki um alla vini þeirra, sem séu stressaðri vegna málsins.

„Sumir vinir mínir hér eru samt alveg að fara á límingunum og telja allt farið úr böndunum. Við erum ekki í þeim hópi - en að því sögðu held ég að það sé samt best að hafa vaðið fyrir neðan sig, þess vegna birgðum við okkur upp núna.“

Hún segir fjöl­skylduna fylgjast vel með fréttum og vona það besta. „Krökkunum finnst ekki leiðin­legt að fá auka­frí og sonur minn er ein­mitt að fagna því að sleppa við eðlis­fræði­próf sem átti að vera á fimmtu­daginn,“ segir Þóra létt í bragði.