Þóra Arnórs­dóttir, rit­stjóri Kveiks, er í göngu­hópnum sem taldi sig hafa rambað fram á ís­bjarnar­saur á Horn­ströndum. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Þóra að það hafi ekki orðið uppi fótur né fit í hópnum á meðan lög­regla og Land­helgis­gæslan könnuðu málið. Um­hverfis­stofnun telur nú að um um­merki eftir álft hafi verið að ræða.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá barst lög­reglunni á Vest­fjörðum til­kynning frá göngu­hópi í Hlöðu­vík á Horn­ströndum um um­merki eftir ó­þekkt dýr sem talið var að væri mögu­lega hvíta­björn. Í til­kynningu lög­reglu frá því í morgun segir að ljóst sé að þar hafi ekki verið björn á ferðinni en lög­reglan fór í eftir­lits­flug með þyrlu Land­helgis­gæslunnar um svæðið.

„Það varð alls ekki uppi fótur og fit,“ segir Þóra létt í bragði að­spurð en hún er í hópi þrettán kvenna sem nú er í viku­ferð um Horn­strandir. „Við sem­sagt létum vita af því að við hefðum séð eitt­hvað sem gæti bent til þess að björn hefði verið á ferð og létum vita af því að við töldum okkur ekki vera sér­fræðingana til að geta metið það,“ út­skýrir hún.

„Þetta var saur,“ segir Þóra. „Rosa­lega mikill og risa­stór. Það eru sem­sagt tveir læknar hér með okkur í för og hér í Hlöðu­vík höfðu allir tekið eftir þessu og við vorum sam­mála um að þetta gæti ekki verið eftir ref, ekki eftir fugl og ekki eftir sel eða hús­dýr,“ segir Þóra. Annar læknirinn fór svo með gæslunni að saurnum og taldi sá hópur sig jafn­vel hafa séð hramma­för að sögn Þóru.

Hún viður­kennir að­spurð að það sé létt yfir nú hópnum en tekur fram að hópurinn sé þakk­látur skjótum við­brögðum gæslunnar. „Það eina sem þú þarft að gæta að er að við glötum ekki mann­orðinu,“ segir Þóra í gríni og hlær.

Tekin hafi verið sýni úr saurnum af lög­reglu og þá töldu lög­reglu­menn sig hafa séð eitt­hvað sem gæti hafa verið bjarnar­spor. „En við vorum alveg pollró­legar,“ tekur Þóra aftur fram hlæjandi með hlæjandi göngu­ferða­löngum sínum. Að­spurð segir hún sporin hafa verið stór.

„Við erum hérna með fólki sem er ættað af svæðinu og vitum alveg að hér geta komið birnir,“ segir Þóra. Hún bendir á að bara í síðustu vika hafi borgar­ís­jakar verið inn í Hlöðu­vík. „Þannig það hefði eigin­lega verið ó­á­byrgt að segja ekkert.“