Þóra Arnórs­dóttir rit­stjóri frétta­skýringa­þáttarins Kveiks á RÚV hefur sagt upp störfum og segist ekki ætla að halda á­fram að starfa í fjöl­miðlum. Hún sagði upp störfum um mánaða­mótin og lætur sam­stundis af störfum. Fyrst var greint frá á vef mbl.is

„Ég tek tíma í að ganga frá. Þegar maður er búinn að vera ein­hvers staðar í 25 ár þarf kannski að fara í gegnum nokkur skjöl,“ segir Þóra og hlær. Ingólfur Bjarni Sig­fús­son tekur við starfi hennar sem rit­stjóri Kveiks.

Þóra vill ekkert gefa upp um það hver hennar næstu skref eru en segir næsta verk­efni ekki vera hjá RÚV eða vera í fjöl­miðlum.

„Það verður til­kynnt á næstu dögum,“ segir hún létt.

Spurð hvort um hafi verið að ræða skyndi­á­kvörðun segir Þóra „já og nei“,

„Þegar opnast stærri mögu­leikar þá hugsaði ég með mér að þetta væri rétti tíminn. Þegar maður er búinn að vera þetta lengi í mínu fagi.“

Hún segir Sam­herja­málið engin á­hrif hafa haft á á­kvörðunina um að hætta.

„Nei, það hafði engin á­hrif á þetta,“ segir hún á­kveðin.

Þóra hefur starfað í fjöl­miðlum í um aldar­fjórðung í sjón­varpi og út­varpi. Hún hefur fram­leitt heimilda­þætti og rit­stýrt Kveik frá því þættirnir hófu göngu sína árið 2017.

Þóru þekkja líka margir frá því að hún bauð sig fram til for­seta gegn sitjandi for­seta Ólafi Ragnari Gríms­syni árið 2012.