Þóra Arnórsdóttir ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks á RÚV hefur sagt upp störfum og segist ekki ætla að halda áfram að starfa í fjölmiðlum. Hún sagði upp störfum um mánaðamótin og lætur samstundis af störfum. Fyrst var greint frá á vef mbl.is
„Ég tek tíma í að ganga frá. Þegar maður er búinn að vera einhvers staðar í 25 ár þarf kannski að fara í gegnum nokkur skjöl,“ segir Þóra og hlær. Ingólfur Bjarni Sigfússon tekur við starfi hennar sem ritstjóri Kveiks.
Þóra vill ekkert gefa upp um það hver hennar næstu skref eru en segir næsta verkefni ekki vera hjá RÚV eða vera í fjölmiðlum.
„Það verður tilkynnt á næstu dögum,“ segir hún létt.
Spurð hvort um hafi verið að ræða skyndiákvörðun segir Þóra „já og nei“,
„Þegar opnast stærri möguleikar þá hugsaði ég með mér að þetta væri rétti tíminn. Þegar maður er búinn að vera þetta lengi í mínu fagi.“
Hún segir Samherjamálið engin áhrif hafa haft á ákvörðunina um að hætta.
„Nei, það hafði engin áhrif á þetta,“ segir hún ákveðin.
Þóra hefur starfað í fjölmiðlum í um aldarfjórðung í sjónvarpi og útvarpi. Hún hefur framleitt heimildaþætti og ritstýrt Kveik frá því þættirnir hófu göngu sína árið 2017.
Þóru þekkja líka margir frá því að hún bauð sig fram til forseta gegn sitjandi forseta Ólafi Ragnari Grímssyni árið 2012.