Áhöfn Þórs, varðskips Landhelgisgæslunnar, er nú í Árneshreppi á Ströndum. Um klukkan tíu í morgun hófst hún handa við að koma meira en 50 grindhvalahræjum sem lágu í fjöruborðinu um borð í varðskipið.

„Áhöfnin hófst þegar handa við að draga hræin úr fjörunni í Melavík og það hefur gengið vonum framar. Hræin hafa verið dregin með léttbátum varðskipsins og þau síðan hífð um borð í varðskipið og eru nú þar ansi mörg saman komin. Síðan er gert ráð fyrir að sigla með þau út fyrir sjávarfallsstrauma og þeim síðan sleppt í sjóinn djúpt norður af Langanesi. Það er töluverð sigling fyrir höndum.

„Þeir eru enn þá á fullu að vinna í verkefninu,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Fréttablaðið. Hann ræddi við áhafnarmeðlim Þórs um klukkan fimm sem sagði að verkið gengi vel og verið væri að sækja síðustu hræin úr fjörunni við Árnes og Litlu-Árvík.
„Áhöfnin gerir ráð fyrir að klára verkið nú um kvöldmatarleitið,“ segir Ásgeir.

