Thomas Møller Olsen, sem var dæmdur í nítján ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og fyrir fíkniefnasmygl, mun afplána dóm sinn í Danmörku. Hann var fluttur til Danmerkur síðastliðinn fimmtudag eftir að dönsk yfirvöld féllust á að taka við honum. Björgvin Jónsson, lögmaður Thomasar Møller, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið og RÚV greindi fyrst frá.

Dómþolar eru oft fluttir til heimalanda sinna í afplánun þegar um er að ræða Norðurlandabúa vegna samninga milli þjóðanna. Ríkin viðurkenna dóma hvers annars og er samstarfinu ætlað að tryggja að refsidómar fylgi dómþola, flytji hann á milli Norðurlandanna.

Thomas Møller óskaði sjálfur eftir því að afplána dóm sinn í Danmörku og fékkst leyfi þann 1. október. Hann vildi ekki fara í grænlenskt fangelsi að sögn Björgvins, en fyrsta lokaða fangelsi Grænlands rís nú í Nuuk og átti að vígja það síðastliðinn maí.

Hann var fluttur í Vestre-fangelsið í Kaupmannahöfn. Björgvin segir að um sé að ræða svokallað móttökufangelsi og er ekki enn búið að taka ákvörðun um hvort hann afpláni allan dóminn þar eða verði fluttur annað.

Thomas dvelur nú í Vestre-fangelsinu í Kaupmannahöfn.