Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og forseti ASÍ, segir þolinmæðina fyrir kjarasamningaviðræðum vera orðna mjög litla en að dagurinn í dag leggist vel í hann.
Fulltrúar Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins héldu til fundar klukkan eitt í dag, eftir að hlé var sett á samningaviðræður í gær.
„Það var auðvitað gott að fá hlé en ég vona að viðsemjendur okkar hafi líka nýtt tímann vel í að fara í sitt bakland og leita betur hjá sér. Það er auðvitað alltaf gott að stíga aðeins frá og koma aftur inn,“ segir Kristján.
Hann segir stöðuna vera tvísýna eins og staðan er núna. „Þetta getur auðvitað farið í báðar áttir, þetta er ákveðin úrslitastund myndi ég telja. Við munum sjá betur í lok dags, hvort við séum að ná að landa kjarasamningi eða ekki,“ segir hann.

Mætir með von í brjósti
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist mæta til fundar með von í brjósti um að það náist að ganga frá kjarasamningi.
„Hvort það verður í dag eða um helgina, það verður tíminn að leiða í ljós. Mikilvægi þess að koma launahækkunum út til lágtekjufólks er gríðarlega áríðandi vegna þeirra kostnaðarhækkana sem fólk hefur orðið fyrir á liðnum misserum,“ segir Vilhjálmur.
Hann bendir á að jólahátíð sé að ganga í garð eftir rétt rúma tuttugu dag og að það skipti máli að það takist að ganga frá kjarasamningi fyrir þann tíma.
Vilhjálmur segir daginn í gær hafa nýst vel. „Hann nýttist vel að því leitinu að við töluðum við okkar bakland. Við funduðum saman forsetar Starfsgreinasambandsins til að leggja línurnar fyrir þær viðræður sem núna eru fram undan og það er einhugur innan okkar raða að sýna þá ábyrgð að reyna að klára kjarasamninga hratt og vel,“ segir hann.
Aðspurður að því hvort þolinmæðin sé á þrotum segir Vilhjálmur: „Ég ætla ekki að segja að hún sé á þrotum, ég myndi frekar orða það svoleiðis að hún sé frekar á þrotum hjá fólkinu sem nær ekki endum saman frá mánuði til mánaðar, hún er á þrotum þar.“
„Þess vegna er mikilvægt að okkur takist að ganga frá þessum samningum á allra, allra næstu klukkutímum eða dögum til að hægt sé að keyra út launahækkanir til fólksins,“ bætir hann við.
„Meðan við erum að tala saman, þá er alltaf von,“ segir Vilhjálmur í lokin.
