Kristján Þórður Snæ­bjarnar­son, for­maður Raf­iðnaðar­sam­bandsins og for­seti ASÍ, segir þolin­mæðina fyrir kjara­samninga­við­ræðum vera orðna mjög litla en að dagurinn í dag leggist vel í hann.

Full­trúar Starfs­greina­sam­bandsins og Sam­taka at­vinnu­lífsins héldu til fundar klukkan eitt í dag, eftir að hlé var sett á samninga­við­ræður í gær.

„Það var auð­vitað gott að fá hlé en ég vona að við­semj­endur okkar hafi líka nýtt tímann vel í að fara í sitt bak­land og leita betur hjá sér. Það er auð­vitað alltaf gott að stíga að­eins frá og koma aftur inn,“ segir Kristján.

Hann segir stöðuna vera tví­sýna eins og staðan er núna. „Þetta getur auð­vitað farið í báðar áttir, þetta er á­kveðin úr­slita­stund myndi ég telja. Við munum sjá betur í lok dags, hvort við séum að ná að landa kjara­samningi eða ekki,“ segir hann.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mætir með von í brjósti

Vil­hjálmur Birgis­son, for­maður Starfs­greina­sam­bandsins, segist mæta til fundar með von í brjósti um að það náist að ganga frá kjara­samningi.

„Hvort það verður í dag eða um helgina, það verður tíminn að leiða í ljós. Mikil­vægi þess að koma launa­hækkunum út til lág­tekju­fólks er gríðar­lega á­ríðandi vegna þeirra kostnaðar­hækkana sem fólk hefur orðið fyrir á liðnum misserum,“ segir Vil­hjálmur.

Hann bendir á að jóla­há­tíð sé að ganga í garð eftir rétt rúma tuttugu dag og að það skipti máli að það takist að ganga frá kjara­samningi fyrir þann tíma.

Vil­hjálmur segir daginn í gær hafa nýst vel. „Hann nýttist vel að því leitinu að við töluðum við okkar bak­land. Við funduðum saman for­setar Starfs­greina­sam­bandsins til að leggja línurnar fyrir þær við­ræður sem núna eru fram undan og það er ein­hugur innan okkar raða að sýna þá á­byrgð að reyna að klára kjara­samninga hratt og vel,“ segir hann.

Að­spurður að því hvort þolin­mæðin sé á þrotum segir Vil­hjálmur: „Ég ætla ekki að segja að hún sé á þrotum, ég myndi frekar orða það svo­leiðis að hún sé frekar á þrotum hjá fólkinu sem nær ekki endum saman frá mánuði til mánaðar, hún er á þrotum þar.“

„Þess vegna er mikil­vægt að okkur takist að ganga frá þessum samningum á allra, allra næstu klukku­tímum eða dögum til að hægt sé að keyra út launa­hækkanir til fólksins,“ bætir hann við.

„Meðan við erum að tala saman, þá er alltaf von,“ segir Vil­hjálmur í lokin.

Fundur hófst klukkan 13 í dag og stefnt er á að funda til klukkan 18.
Fréttablaðið/Anton Brink