Starfsgreinasambandið (SGS) og Félag framhaldsskólakennara vísuðu bæði í gær kjaraviðræðum sínum við samninganefnd ríkisins til Ríkissáttasemjara. Þá var viðræðum Félags fréttamanna við Samtök atvinnulífsins vegna RÚV einnig vísað til sáttasemjara.

Samningar á opinbera vinnumarkaðnum hafa verið lausir í næstum tíu mánuði og er mikillar óþreyju farið að gæta hjá stéttarfélögum opinberra starfsmanna og öðrum félögum sem semja við ríki og sveitarfélög.

„Þolinmæðin er bara þrotin og við teljum að hér þurfi bara skýrari verkstjórn. Ríkissáttasemjari hefur ekkert mjög langan tíma þangað til við ákveðum næstu skref,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, um ástæðu þess að viðræðunum hafi verið vísað til sáttasemjara.

Í síðustu viku var skrifað undir kjarasamning SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga og er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna ljúki 10. febrúar næstkomandi. Eitt af stærstu málunum sem enn eru óleyst í viðræðum opinberra starfsmanna eru málefni vaktavinnufólks en skipaður var sérstakur starfshópur um þau mál.

„Okkur finnst þessi vinna í vaktavinnuhópnum ganga allt of hægt. Önnur vinna í viðræðunum sem átti að fara í samhliða hefur engan veginn náð sér á strik. Þar hafa menn til að mynda ekki verið tilbúnir, að okkar mati, til að horfa til ýmissa þátta í sveitarfélagasamningnum,“ segir Flosi.

Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, segist vona að samskiptin við samningsaðila verði áfram góð þrátt fyrir að þessum málum hafi verið vísað á borð ríkissáttasemjara.

„Stóra málið í þessum viðræðum er vinnutímabreytingar. Það er flóknara að breyta því í tilfelli vaktavinnufólks en frá því í síðustu viku höfum við setið mjög þétt yfir því. Það samtal hefur gengið mjög vel,“ segir Sverrir.

Fundað hafi verið stíft alla síðustu helgi og í gær. Þá gerir hann ráð fyrir að unnið verði áfram í starfshópnum núna um helgina.

„Sú vinna gengur afskaplega vel og það er góður andi og samhljómur. Þetta hefur verið tappinn í þessum viðræðum. Gangi það vel er ég vongóður um að það sem eftir standi muni líka ganga vel. Við erum reiðubúin að ganga frá samningum fljótt þegar vaktavinnunni lýkur.“

Boðað hefur verið til baráttufundar opinberra starfsmanna undir yfirskriftinni „Kjarasamninga strax!“ næstkomandi fimmtudag. Það eru BHM, BSRB og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sem standa að fundinum.

Búið er að ganga frá samningum við félög sem í eru um helmingur félagsmanna í BHM en enn er ósamið við ellefu aðildarfélög. Mál BSRB gegn ríki, sveitarfélögum og Reykjavíkurborg eru öll á borði Ríkissáttasemjara. Þá mun atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar sem starfa hjá borginni ljúka um helgina.