„Þetta er ótrúlega góð og flott mæting og þetta er bara svo gott í hjartað að sjá svona marga saman komna og sína samstöðu og stuðning,“ segir Hrefna Tryggvadóttir, formaður NFMH.

Mikil umræða hefur verið síðustu daga vegna kynferðisbrota nemenda í framhaldsskólum og viðbragða skólanna, eða skort þar á. En nemendur víða um land gengu út úr tímum í dag til að mótmæla viðbragðsleysi skólastjórnenda og ráðamanna.

Hlusti á nemendur

Hrefna segist aðspurð telja að allir í skólanum hafa gengið út úr tímum til að mótmæla en hún segir kröfurnar vera að ríkisstjórnin og ráðuneyti hlusti á það sem nemendur hafi að segja.

Þá krefjist nemendur aðgerða, hvernig bregðast megi við kynferðisbrotamálum innan menntaskólanna.

Hrefna segir nemendur hafa komið með hugmyndir að aðgerðum. Til að mynda vanti fræðslu og þá þurfi að fjarlægja meinta gerendur úr staðnámi og finna aðrar lausnir líkt og fjarnám. „Gera allt til að fólk viti hvað er í gangi og að fólki líði vel í skólanum.“

Þurfa breytingar

Margir tóku til máls á mótmælunum, þar á meðal Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, en hann bað nemendur afsökunar á að ekki hafi verið hlustað á nemendur í öll þessi ár.

Aðspurð segir Hrefna afsökunarbeiðni ekki nóg. „Við fáum ekki alvöru afsökunarbeiðni fyrr en við förum að sjá breytingar. Það er mjög auðvelt fyrir hann að stíga hér á svið og biðjast afsökunar. En við erum núna að bíða eftir breytingum, það er það sem við þurfum miklu meira en afsökunarbeiðnir.“

Hrefna segir nemendur krefjast þess að þolendur fái loksins þau réttindi sem þau eigi skilið. Allt of lengi hafi þolendur þurft að fela sig og víkja fyrir gerendum og svo þegar nemendur hafi talað þá hafi ekki verið hlustað á þau. „Við erum hér í dag til að láta rödd okkar heyrast svo að það verði hlustað á okkur og þjóðin og kerfið muni loksins gera eitthvað.“ Hún segir skólastjórnendur fyrst núna að taka mark á nemendum og því hafi byltingin sem nú stendur yfir verið nauðsynlegt skref. Nemendur hætti ekki að berast fyrr en breytingar verði.