Brotaþoli sem stefnir meintum geranda kynferðisbrots til greiðslu skaða- eða miskabóta í einkamáli gæti átt lagalegan rétt á fjárhagslegum stuðningi við rekstur málsins, nái nýtt lagafrumvarp fram að ganga.
„Þetta mun líklega fjölga þeim einkamálum sem eru höfðuð eftir niðurfellingu en líka gefa þolendum von og tækifæri til að sækja rétt sinn,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Frumvarpið er einnig flutt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Viðreisnar, Pírata, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins.
Snerist oft um sanngirni og viðurkenningu
Helga Vala segist hafa áttað sig á því þegar hún starfaði sem lögmaður að fyrir þolendur snerist málið oft um ákveðna sanngirni og viðurkenningu á að brot hafi átt sér stað.
Frumvarpið er hugsað til að leggja sérstaka áherslu á þolendur kynferðisbrota og ofbeldisbrota í nánum samböndum. Þolendur umræddra brota gætu sótt einkamál á hendur gerenda þrátt fyrir niðurfellingu mála á rannsóknar- og ákærustigi eða sýknu í sakamáli.
Eðli og alvarleiki brotanna er talinn réttlæta lögbundna gjafsókn í málunum. „Það eru nokkrir þættir þar sem er lögbundin gjafsókn, þá sérstaklega í svona sanngirnismálum,“ segir Helga Vala. „Við teljum að þetta sé skýrt sanngirnismál, að styðja við þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis.“
Liðka fyrir að sækja rétt sinn
Sönnunarbyrðin er mismunandi eftir því hvort um sakamál eða einkamál er að ræða en ríkari kröfur eru gerðar til sönnunar í sakamálum þar sem hvers kyns vafi er túlkaður sakborningi í hag. Fá kynferðisbrot enda fyrir dómstólum og enn færri með sakfellingu, segir í greinargerð frumvarpsins.
„Slík sönnunarkrafa er ekki fyrir hendi í einkamálum og því telja flutningsmenn frumvarpsins rétt að liðka til fyrir þolendum ofbeldis að sækja rétt sinn hvað varðar greiðslu skaða- eða miskabóta og fá þannig viðurkenningu á þeim hluta máls,“ segir í greinargerðinni.
Kostnaðurinn við einkamál getur verið mikill og í mörgum tilfellum ekki raunhæfur möguleiki fyrir brotaþola. Lögbundin gjafsókn myndi koma í veg fyrir fjárhagslega áhættu og gera þolendum betur kleift að sækja rétt sinn óháð fjárhagsstöðu.
„Við sjáum hvað það er ofboðslega lítið hlutfall af málum sem komast af rannsóknarstigi,“ segir Helga. „Það eru sárafá mál sem sæta ákæru og komast inn í dóm.“
„Ég held þetta sé líka liður í því að færa dómurum möguleika á að sjá breiðari hluta þessara mála og þá læra af því. Læra að viðbrögð þolenda í svona aðstæðum eru allskonar, viðbrögð gerenda líka og aðstæður allar. Þetta er þannig í þágu alls kerfisins en þolendur fyrst og fremst,“ segir Helga.