Hreinsun hefst brátt á svæðinu á Hofsósi þar sem bensínleki úr tanki N1 olli miklu mengunarslysi fyrir meira en tveimur árum síðan. Matsgerð er nýlokið fyrir tjón sem tvær fjölskyldur urðu fyrir.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður annarrar fjölskyldunnar, segir umbjóðendur sína ósátta við matsgerðina, því ekki hafi verið komið til móts við þörf þeirra fyrir nýtt hús. Verið sé að reyna að ná samkomulagi við N1 en upphæðir verði ekki gefnar upp að svo stöddu.

„Húsið var metið óíbúðarhæft og verðlaust,“ segir Ragnar. Fjölskyldan hafi ekki getað verið heima hjá sér í meira en tvö ár og fari ekki þangað á næstunni.

Þau hafi búið í uppgerðu sumarhúsi í nágrenni Hofsóss þennan tíma.

Í nóvember gaf Umhverfisstofnun N1 út fyrirmæli um hreinsun, byggðum á úrbótaáætlun sem N1 lét gera. Sveitarfélagið hefur samþykkt framkvæmdaáætlunina og hreinsun getur hafist. Forsvarsmenn sveitarfélagsins eru hins vegar ekki að öllu leyti sáttir við málalyktir.

„Þarna eru fyrirmæli um loftskipti, undirþrýsting og slíkar aðgerðir sem geta tekið allt að tveimur árum. Við vildum frekar jarðvegsskipti,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.

Hann segir þetta ekki tekið úr lausu lofti, heldur hafi sú verkfræðistofa sem unnið hafi rannsóknir fyrir sveitarfélagið, talið jarðvegsskipti mun öruggari. Harmar sveitarstjórnin að Umhverfisstofnun hafi ekki tekið tillit til óska sveitarfélagsins nema að litlu leyti.

Samkvæmt Sigfúsi hafa kærumál gagnvart N1 ekki verið útilokuð. „Við erum að skoða það. Við höfum ráðist í mikinn kostnað vegna rannsókna og lögfræðivinnu. Við erum eigendur lóðanna og götunnar þannig að við áskiljum okkur allan rétt til að endurkrefja allan þann kostnað sem fellur á okkur,“ segir hann.