Árleg þökulagning Klapparstígsins er hafin. „Við erum með 150 fm af þökum og allar græjurnar frá Luxor,“ segir Steinn Einar Jónsson sem er á fullu við að undirbúa árlegt danspartí á Menningarnótt, Karnival á Klapparstíg.

„Gamanið byrjar klukkan 15:00 á morgun með jóga og svo verður hér dansað fram að flugeldasýningu,“ segir Steinn Einar.

Dj Margeir leikur fyrir dansi ásamt vinum til miðnættis.

„Það er gaman að búa til vin í borginni. Þar sem fólk er vant því að sé hart og grátt, verður mjúkt og grænt,“ segir Steinn Einar.

„Þetta byrjaði á því að Dj Margeir sem á afmæli um þetta leyti, fór út með afmælið sitt, en hann á heima í grenndinni og því hefur svo vaxið fiskur um hrygg ár frá ári. Það fyrsta sem hann sagði við mig var að hann langaði til að þetta yrði eins og sígaunar að halda partí úti í skógi,“ segir Steinn Einar sem hefur unnið sig út frá því síðan.

Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli