Mál­þing Em­bættis land­læknis til heiðurs Þór­ólfi Guðna­syni, fyrr­verandi sótt­varna­lækni, fór fram í gær í til­efni starfs­loka hans. Alma D. Möller var fundar­stjóri, en hún átti hug­myndina að við­burðinum sem inni­hélt fjöl­breytt erindi, bæði há­vísinda­leg sem og per­sónu­leg.

Willum Þór Þórs­son heil­brigðis­ráð­herra setti mál­þingið með því að þakka Þór­ólfi fyrir hönd þjóðarinnar fyrir vel unnin störf. Hann lagði á­herslu á hversu góður hann væri í sam­skiptum og vitnaði í gamla Eyja­söngva eftir Ása í Bæ.

For­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, Kári Stefáns­son, var næstur og fór út um víðan völl í erindi sínu, frá þróun mannsins yfir í sjálfan Þór­ólf, sem hann sagði að væri sannur leið­togi sem hefði sam­einað þjóðina á erfiðum tímum. „Í fyrsta skipti áttum við leið­toga sem við treystum – og það skiptir máli, Þór­ólfur,“ sagði Kári og kallaði Þór­ólf vin sinn, fé­laga og fóst­bróður.

Vísindin voru næst á dag­skrá. Prófessorarnir Unnur Anna Valdimars­dóttir og Thor Aspelund fjölluðu meðal annars um notkun spá­líkana og lang­tíma­á­hrif Co­vid-19. Þá kom Jón Steinar Jóns­son, yfir­læknir á Þróunar­mið­stöð ís­lenskrar heilsu­gæslu, og hélt erindi. Unnur, Thor og Jón höfðu öll orð á því hversu gott sam­starfið með Þór­ólfi hefði verið, og lýsti Thor því sem „once in a life­time“-reynslu.

Næst kom Víðir Reynis­son, sviðs­stjóri al­manna­varna, og fjallaði um notkun vísinda­gagna við sviðs­mynda­gerð al­manna­varna. Hann fór einnig bak við tjöldin og sagði sögur af því þegar þeir fé­lagarnir voru bugaðir eftir mikla og erfiða vinnu, en að alltaf hefði verið stutt í já­kvæðnina hjá Þór­ólfi. „Takk fyrir sam­starfið og takk fyrir vin­áttuna,“ sagði Víðir.

Runólfur Páls­son, prófessor og for­stjóri Land­spítalans, greindi frá því hvernig spítalinn brást við heims­far­aldrinum, með á­herslu á ný­sköpun. Þá var skipt um gír, en Guð­rún Aspelund sótt­varna­læknir fékkst við spurninguna: Hver er Þór­ólfur? Hún fór fögrum orðum um for­vera sinn, sem hún lýsti sem dug­legum manni sem gæfist aldrei upp, en væri jafn­framt hrókur alls fagnaðar.

Þá var komið að sjálfum Þór­ólfi að líta yfir farinn veg. Nú væri komið að tíma­mótum hjá honum, og því upp­lifði hann blendnar til­finningar, en sagði að já­kvæðar minningar stæðu upp úr. Hann benti þó á að hann væri ekki á leiðinni í gröfina og að það væri mikið lang­lífi í föður­fjöl­skyldunni. Þór­ólfur hélt mikla þakkar­ræðu, þar sem hann minntist á sam­starfs­fólk, stjórn­völd, þjóðina og fjöl­skyldu sína. Hann hlaut mikið lófa­klapp að ræðu sinni lokinni.

Alma D. Möller var fundar­stjóri, en hún átti hug­myndina að við­burðinum sem inni­hélt fjöl­breytt erindi, bæði há­vísinda­leg sem og per­sónu­leg.
Fréttablaðið/Valli

Svan­dís Svavars­dóttir, land­búnaðar­ráð­herra og fyrr­verandi heil­brigðis­ráð­herra, sló á létta strengi og benti á hversu mikill húmor­isti Þór­ólfur væri. Hún greindi til að mynda frá því að hann hefði sent sér apríl­gabb í staðinn fyrir smit­tölur, eitt kvöldið þegar far­aldurinn stóð sem hæst.

Að lokum kom leyni­gestur. Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra tók undir með flokks­systur sinni um að Þór­ólfur væri mikill húmor­isti. „Hann skiptir aldrei skapi þó allir aðrir séu að skipta skapi,“ sagði Katrín, og að það hlyti að hafa verið að erfitt að glíma við far­aldurinn, stjórn­völd og þjóðina á sama tíma.