Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, flutti í nótt sína síðustu ræðu á þingi en hann tilkynnti síðastliðinn október að hann myndi hætta í pólitík og er þetta kjörtímabil því hans síðasta. Steingrímur hefur setið lengur á þingi en allir núverandi þingmenn, eða frá árinu 1983.

Þegar Fréttablaðið náði tali af Steingrími í gærmorgun, þegar umræða um Hálendisþjóðgarðinn fór fram, sagðist Steingrímur ætla að klára daginn og síðan hvíla sig vel, þar sem hann nældi sér í hálsbólgu í vikunni, og því væri lítið um fögnuð að þingfundi loknum.

Alþingismenn vilja sínu landi vel

Í ræðu sinni fór Steingrímur yfir liðið kjörtímabil, kórónaveirufaraldurinn og sögu Alþingis og þakkaði samferðafólki sínu fyrir góð kynni þótt vissulega hafi skipst á skin og skúrir. Hann brýndi fyrir þingmönnum að vera til fyrirmyndar, að á Alþingi ætti ekki líðast einelti né útsköfun. Þar megi aldrei umbera kynferðislegt áreiti eða kynbundna mismunun, kynþáttahyggju, fötlunar eða öldurnar fordóma eða neina aðra þá háttsemi sem ekki sæmir siðmenntuðu samfélagi.

„Ég hef helgað stjórnmálum á Alþingi umtalsverðan meiri hluta ævidaga minna og ég kveð sáttur, fullkomlega sáttur þegar ég lít yfir farinn veg. Hér hefur verið gott að starfa. Ég læt því af þingmennsku með góðar minningar um mikinn fjölda fólks sem ég hef átt hér lengri og skemmri samleið með og hefur held ég undantekningarlaust átt að minnsta kosti eitt sameiginlegt, þ.e. það hefur viljað sínu landi vel. Þetta fólk hefur kannski ekki endilega átt mikið meira sameiginlegt en það munar um minna. Ég hef notið þessara rúmum 38 ára sem ég hef setið á Alþingi og í nánast öllum hlutverkum á mismunandi tímum sem stjórnmálin hafa upp á að bjóða. Ég mun sakna Alþingis en ég kveð það sáttur.“

Áður en Steingrímur lauk máli sínu þakkaði hann Guðjóni S. Brjánssyni, fyrsta varaforseta Alþingis, sérstaklega og sagði hann afar traustan og góðan mann til að vinna með.

„Ég vil að lokum heita á alla viðkomandi að heyja málefnalega og heiðarlega kosningabaráttu á hausti komanda. Megi Alþingi Íslendinga vel farnast landinu og landsmönnum öllum um ókomin ár.“

Oddný G. Harðardóttir, þakkaði Steingrími fyrir störf hans í þágu þings og þjóðar fyrir hönd þingmanna og færði honum blómvönd.

„Hann hefur ætíð notið álits sem ræðuskörungur og verið aðsóknsmikill og dugmikill þingmaður og ráðherra. Hann er líka manna skemmtilegastur á góðum stundum, mikill sagnamaður og hagyrðingur. Á þeim tólf árum sem ég hef setið á Alþingi hef ég átt náið og gott samstarf við hæstvirtan forseta, bæði í ríkisstjórn og sem þingflokksformaður sem ég persónulega þakka fyrir,“ sagði Oddný.

Steingrímur hefur setið á Alþingi fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og síðan Norðausturkjördæmi frá því 1983
Mynd úr safni

Verið í framboði í öllum kosningum frá 1978

Steingrímur er fæddur á Gunnarsstöðum í Þistilfirði 4. ágúst 1955, hefur setið á Alþingi fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og síðan Norðausturkjördæmi frá því 1983 og er með lengsta þingreynslu allra núverandi þingmanna. Hann hefur leitt framboðslista í síðustu 11 alþingiskosningum og verið í framboði í öllum kosningum síðan 1978. Hann sat fyrst á þingi fyrir Alþýðubandalagið, var formaður þingflokks Alþýðubandalagsins um tíma.

Steingrímur hefur á sínum langa þingferli verið landbúnaðar- og samgönguráðherra, fjármála, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, efnahags og viðskiptaráðherra og atvinnuvega og nýsköpunarráðherra. Þá hefur Steingrímur verið leiðandi í norrænu samstarfi bæði í Norðurlandaráði og Vestnorræna ráðinu.

Hann hefur verið forseti Alþingis, fyrst í stuttan tíma 2016 og fram í janúar 2017 og síðan aftur frá því eftir kosningar 2017 og er enn. Lesa má um feril Steingríms J. Sigfússonar í bókinni Saga VG sem kom út á 20 ára afmæli hreyfingarinnar og í bókum sem hann hefur sjálfur skrifað.