Leiðtogar Demókrata innan bandaríska þingsins funduðu í dag með ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta í von um að komast að samkomulagi um efnahagspakka Repúblikana en pakkinn, sem hljóðar upp á eina billjón Bandaríkjadali, var kynntur fyrir fulltrúadeildinni í síðustu viku.

Mikil togstreita hefur verið milli Repúblikana og Demókrata vegna efnahagspakkans en Demókratar segja tillögur Repúblikana vera ófullnægjandi auk þess sem að ýmis ákvæði væru óásættanleg, til að mynda að fyrirtæki væru ekki skaðabótaskyld gagnvart starfsmönnum sínum.

Enn ýmislegt sem er útistandandi

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, og Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata innan öldungadeildarinnar, funduðu með fjármálaráðherranum Steve Mnuchin og Mark Meadows, starfsmannastjóra Hvíta hússins, í rúmlega tvo klukkutíma og sögðu báðar hliðar að þau væru í framfaraátt þrátt fyrir að enn væri ýmislegt sem þyrfti að laga.

„Við erum að ná árangri í ákveðnum málefnum,“ sagði Schumer í kjölfar fundarins og bætti við að þau væru að færast nær samkomulagi. „Það eru enn mjög mörg mál sem eru útistandandi en ég held að það sé vilji til staðar að ljúka málinu eins fljótt og við getum.“

Mikilvægt að komast að samkomulagi sem fyrst

Pakkinn sem kynntur var í síðustu viku felur í sér 100 milljarða til skóla í landinu auk þess sem Bandaríkjamenn fái í annað sinn greiddar sérstakar ávísanir vegna faraldursins upp á 1200 dollara. Þá er það einnig lagt til að sérstakur atvinnuleysisbótaauki verði lækkaður niður í 200 dollara á meðan ríki útfæra áætlanir sem gera ráð fyrir að fólk sem geti ekki unnið fái allt að 70 prósent af launum sínum til baka.

Búist er við að fundað verði áfram um málið í vikunni en mikil áhersla hefur verið lögð á að komast að samkomulagi sem fyrst þar sem Bandaríkin eru að renna út á tíma þegar kemur að efnahagslegum aðgerðum.