Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, spyr sig hvað Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, meini með því að segja „Það muni koma meira í ljós í þessu máli á komandi dögum.“ Þetta kemur fram í færslu á Facebook síðu hennar.
„Það ríkir þögn á stjórnarheimilinu eftir að Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra setti fram pólitíska stríðsyfirlýsingu gagnvart fjármálaráðherra með orðum um að fjármálaráðherra eigi að axla pólitíska ábyrgð á því hvernig sala á fjórðungseignarhluta ríkisins í Íslandsbanka fór fram“ segir Þorbjörg.
Þorbjörg segir orð Lilju gefa til kynna að skoðanamunur hafi verið á milli hennar og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Hún segir þessi orð Lilju vera til marks um að hún telji frekari upplýsingar um málið verði öðrum ráðherrum erfiðar.
„Varaði viðskiptaráðherra þau við því að illa kynni að fara? Hverjar voru áhyggjur hennar og varnaðarorð?“ spyr Þorbjörg. Enginn ráðherra bókaði afstöðu sína á ríkisstjórnarfundum um sölu á Íslandsbanka en Þorbjörg segir það vekja athygli að hvorki Katrín, né Bjarni hafa tjáð sig umumræður sem fóru fram á þessum fundum.
Þorbjörg bendir á að Lilja beri ábyrgð samkvæmt siðareglum ráðherra. En í grein 6.3 segir:
„Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.“
„Lilja upplýsti Alþingi ekki um áhyggjur sínar um aðferðafræði við sölu á Íslandsbanka. Almenningur heyrði ekki af þessum áhyggjum og varnaðarorðum viðskiptaráðherra fyrr en eftir söluna og eftir að þung umræða hófst. Þá steig viðskiptaráðherra fram og talaði um mikilvægi þess að „hafa vaðið fyrir neðan sig““, segir Þorbjörg.
Þorbjörg segir þögn ráðherra yfir páskahátíðina muni ekki kæfa kröfur um svör.