Mennta- og menningarmálaráðuneytið vill ekki tjá sig um málefni Menntamálastofnunar (MMS) þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í byrjun þessa mánaðar ríkir mikil óánægja meðal starfsmanna MMS gagnvart forstjóra og yfirstjórn.
Í áhættumati Auðnast kom fram að mikill meirihluti starfsfólks vilji að forstjórinn, Arnór Guðmundsson, víki frá störfum en Arnór hefur sjálfur sagt áhættumatið ekki standast faglegar kröfur.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stóð til að menntamálaráðuneytið myndi koma fram með aðgerðaáætlun til umbóta innan MMS, en þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hefur ráðuneytið hvorki viljað staðfesta né neita hvort von sé á slíkri áætlun.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að málefni Menntamálastofnunar séu til umfjöllunar í ráðuneytinu, en ekki sé hægt að upplýsa um framvindu málsins meðan á því stendur.