Mennta- og menningarmálaráðuneytið svarar ekki ítrekuðum fyrirspurnum Fréttablaðsins um hvort ráðuneytið hafi ráðlagt stjórn RÚV að brjóta lög með því að bíða með að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur.

Lög þess efnis voru sett árið 2013 og tóku gildi í byrjun árs 2018.

Kári Jónasson, formaður stjórnar RÚV, sagði eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út nýverið að að nú sé komin fullvissa fyrir því að það sé í lagi að stofna dótturfélög en óvissa hafi ríkt um það vegna virðisaukaskattsmála. Hefur starfshópi verið falið að stofna dótturfélag.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi sagði í kjölfarið að aldrei hefði verið nein óvissa. „Frá ársbyrjun 2018 hefur það verið alveg skýr lagaskylda að stofna dótturfélag,“ sagði Skúli Eggert.

Stjórn RÚV sendi tilkynningu á mánudaginn í síðustu viku þar sem greint var frá bréfi dagsettu 10. október 2018 þar sem ráðuneytið á að hafa tilkynnt RÚV um að „farið yrði yfir málið“ þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar lægi fyrir. Því hafi stjórnin ekkert aðhafst.

Fyrir viku sendi Fréttablaðið ráðuneytinu fyrirspurn þar sem óskað var eftir bréfinu og hvort það sé rétt að ráðuneytið hafi ráðlagt RÚV að fara ekki að lögum. Fyrir helgi gaf ráðuneytið til kynna að svar væri væntanlegt, en það hefur ekki borist.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er málið viðkvæmt innan veggja ráðuneytisins. Er þá um að ræða hóp embættismanna sem hefur mikinn vilja til að ganga erinda RÚV fram yfir ráðuneytið og aðrar stofnanir.

Klausa fjarlægð af vef Ríkisútvarpsins

Stjórn RÚV hefur framlengt um­sóknar­frest um starf út­varps­stjóra um sjö daga. Starfið var aug­lýst þann 15. nóvember síðast­liðinn og var upp­haf­legur um­sóknar­frestur til 2. desember, en nú til mánudagsins 9. desember.

Sagði Kári að RÚV væri undanskilið þar sem það væri opinbert hlutafélag. Stjórnarráðið heldur úti lista yfir lögaðila sem eru að meirihluta í eigu ríkisins sem eru undanþegnir upplýsingalögum. Ríkisútvarpið ohf. er ekki þar á meðal. Sagði Kári að frestunin tengist ekki nafnbirtingunni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sendi stjórninni bréf 28. nóvember þar sem hún óskaði eftir skýringum á því hvers vegna listinn væri ekki birtur.

Í gærmorgun mátti finna klausu á vef RÚV þar sem var sérstaklega tekið fram að RÚV væri skylt á grundvelli upplýsingalaga að birta nöfn þeirra umsækjenda sem sækja um auglýst störf. Sú klausa var fjarlægð af vefnum eftir hádegi. Ekki höfðu borist svör frá RÚV þegar blaðið fór í prentun.