Viðsjá í öryggismálum Evrópu, sammannleg gildi, efnahagsmál og hneyksli tengd útboði Íslandsbanka, eru í hópi þess sem nú knýr á sem aldrei fyrr, að skoða aðildarviðræður milli Íslands og ESB, að sögn þingmanna þeirra tveggja flokka sem eru með ESB-aðild á stefnuskrá sinni. Sagan sýnir þó að meira þarf til en krísu til að ESB-aðild verði sett á dagskrá hér, að mati stjórnmálafræðings.

Viðhorfsbreyting hefur orðið samkvæmt könnunum bæði hérlendis og í nágrannalöndum Íslands gagnvart ESB í kjölfar innrásar Rússa og þeirrar óvissu sem Evrópa stendur frammi fyrir vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Gallup mældi aukinn áhuga á aðild innanlands skömmu eftir innrásina. Meðal Breta hafa kannanir mælt vaxandi efasemdir um að Brexit hafi verið rétt ákvörðun. Þá er umræða í norskum stjórnmálaflokkum um hvort blása eigi lífi í ESB-aðild eftir nokkurt umræðuhlé.

„Okkar ábyrgð er að halda Evrópu-umræðunni gangandi, því það skiptir máli fyrir börnin okkar og framtíðina að stoppa íhaldsliðið sem vill ekki hreyfa við neinu, hvað þá treysta þjóðinni,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Viðreisn og Samfylking styðja ESB-inngöngu. Aðrir flokkar hafa ekki fullmótaða stefnu eða eru gegn aðild. Ísland sótti um aðild að ESB sumarið 2009. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra rifti viðræðunum með bréfi til Brussel 2013 þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru við völd. Síðan er vart hægt að segja að málið hafi verið á dagskrá, en í síðasta mánuði lagði formaður Samfylkingarinnar fram þingsályktunartillögu ásamt öllum þingmönnum Viðreisnar og Pírata, um að á þessu ári fari fram þjóð­ar­at­kvæða­greiðsla um hvort halda skuli áfram aðild­ar­við­ræðum Íslands við Evr­ópu­sam­band­ið. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, telur að innrásin auki líkur á áhuga Íslendinga að ganga í ESB.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að stórviðburðir síðustu vikna sýni betur en nokkru sinni að Ísland tilheyri bandalagi evrópskra þjóða sem deili sömu gildum og standi vörð um frið, mannréttindi og öryggi. Ofan á þetta blasi við vegna bankasölunnar að erlendir fjárfestar hafi hvorki áhuga né hagsmuni af því að fjárfesta í bankakerfi sem noti örmyntina íslenska krónu. Það sé Íslandi dýrt á ýmsum sviðum að standa utan ESB.

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, segir að innrás Rússa í Úkraínu auki mikilvægi inngöngu í ESB. Vegna beinna hagsmuna Íslands, en ekki síður til að öfgar fái ekki þrifist, sem ógni stöðugleika og öryggi. „Þetta eru risahagsmunir. Þess vegna er vont að hafa ríkisstjórn sem treystir ekki þjóðinni til að taka næsta skref.“

Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði hefur gert ótal rannsóknir um Ísland og ESB. Hann segir að skömmu eftir hrun hafi stóraukinn tímabundinn áhugi allra flokka landsins á ESB verið genginn til baka. „Hrunið á Íslandi hafði til lengri tíma engin áhrif á viðhorf íslenskra stjórnmálaflokka til Evrópuaðildar sem er athyglisvert og segir til um hve mikið þarf til að Evrópustefna íslenskra stjórnmálaflokka breytist.“

Baldur segir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sjái enga ástæðu til að ganga í ESB vegna öryggis- og varnarmála. Flokkarnir telji að tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin og aðild að NATÓ dugi til. Þær breytur sem hafi mest áhrif á Evrópustefnu ríkisstjórnarflokkanna séu hagsmunir tengdir sjávarútvegi og landbúnaði auk þess sem þjóðernishyggja hafi nokkurt vægi. „Það er andstaða við að flytja vald frá Reykjavík til Brussel. Ég sé ekki að ástand mála núna í Evrópu haggi því.“

En telur Baldur sjálfur að Ísland ætti að stefna að inngöngu í ESB?

Hann segir erfitt að svara slíkri spurningu þar sem Evrópuumræða sé nánast kerfisbundið þögguð niður í íslenskri stjórnmála­umræðu.

„Þessi þöggun heldur aftur af því að gaumgæfileg skoðun eigi sér stað,“ segir Baldur.