Ekki er minnst á niðurgreiðslu sálfræðikostnaðar, tannréttingar barna eða hækkun launa meðal heilbrigðisstarfsfólks í nýja stjórnarsáttmálanum. Willum Þór Þórsson segir þessi mál vera uppi á sínu borði en hann tekur við af Svandísi Svavarsdóttur í heilbrigðisráðuneytinu.
Fréttablaðið ræddi við Willum eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum og var hann meðal annars spurður hvort stæði til að niðurgreiða sálfræðikostnað.
„Það er mál sem var búið að samþykkja og klára á þingi og leggja fjármagn í þannig að það liggur hjá sjúkratryggingum en það er eitt af þeim málum sem ég mun skoða,“ segir Willum. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að efla geðheilbrigðismál almennt og Willum segir að til standi að efla einnig geðheilbrigðisteymi sem starfi um allt land.
„Við ætlum að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Geðheilsuteymi verða efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta þjónustu sem er miðuð að ólíkum þörfum,“ segir í stjórnarsáttmálanum.
Þarf tíma til að setja sig inn í tannréttingarmálið
Fréttablaðið fjallaði í síðustu viku um styrki vegna tannréttingar barna sem hafa ekki hækkað sem skildi á undanförnum árum. Um 1.800 börn á Íslandi fá árlega tannréttingaþjónustu. Kostnaður heimila vegna þessa getur numið á aðra milljón fyrir hvert barn. Eini frádrátturinn er styrkur upp á 100.000 til 150.000 krónur frá Sjúkratryggingum nema í mjög alvarlegum undantekningartilfellum.
Styrkirnir hafa ekki hækkað í tvo áratugi. 150.000 króna styrkur ætti samkvæmt verðlagshækkunum að vera 340.000 krónur í dag. Aðspurður um afstöðu stjórnarsáttmálans til þessara mála segir Willum að hann þurfi enn tíma til að setja sig inn í þau mál.
„En fyrst og fremst er ég sáttur við stjórnarsáttmálann og hvernig þetta er orðað með heilbrigðismálin í heild sinni og hversu mikilvægum sess þeim er gefinn í þessum stjórnarsáttmála,“ segir Willum.
„Við erum öll mjög meðvituð um það hvað heilsan er okkur mikilvæg, hún er okkar dýrmætasta eign. Þannig að styrkur samfélagsins er sannarlega mældur í þeim styrk og mér finnst stjórnarsáttmálinn fanga þetta mjög vel.“
Áhersla á að fjárfesta í og þjónusta fólki
Nokkuð hefur verið rætt um stöðuna í heilbrigðisgeiranum að undanförnu, ekki síst vegna anna sem fylgja heimsfaraldrinum og skort á starfsfólki innan geirans. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði að takmarkandi þátturinn í því hversu margir geti verið inniliggjandi á spítalanum takmarkist við mönnun.
Framkvæmdastjórn Landspítalans var ósammála þeirri fullyrðingu og segir vandann vera fyrst og fremst fjármagnsvandi. Í því samhengi er Willum spurður hvort standi til að auka fjármagn til stéttarinnar með það í huga að hækka laun þessa framlínustarfsfólks.
„Stjórnarsáttmálinn segir að við verðum að fjárfesta í fólki og þjónusta fólk þannig að það haldi lengur og betur í sína dýrmætustu eign,“ segir Willum. „Þá er lykilatriði að þeim sem eru að veita þjónustuna líði vel, því þannig verður þjónustan best og þá líður okkur öllum vel.“