Ekki er minnst á niður­greiðslu sál­fræði­kostnaðar, tann­réttingar barna eða hækkun launa meðal heil­brigðis­starfs­fólks í nýja stjórnar­sátt­málanum. Willum Þór Þórs­son segir þessi mál vera uppi á sínu borði en hann tekur við af Svan­dísi Svavars­dóttur í heil­brigðis­ráðu­neytinu.

Frétta­blaðið ræddi við Willum eftir ríkis­ráðs­fund á Bessa­stöðum og var hann meðal annars spurður hvort stæði til að niður­greiða sál­fræði­kostnað.

„Það er mál sem var búið að sam­þykkja og klára á þingi og leggja fjár­magn í þannig að það liggur hjá sjúkra­tryggingum en það er eitt af þeim málum sem ég mun skoða,“ segir Willum. Í stjórnar­sátt­málanum er talað um að efla geð­heil­brigðis­mál al­mennt og Willum segir að til standi að efla einnig geð­heil­brigði­s­teymi sem starfi um allt land.

„Við ætlum að efla geð­heil­brigðis­þjónustu fyrir alla hópa sam­fé­lagsins, ekki síst börn og ung­menni. Geð­heilsu­teymi verða efld um land allt, á­hrif not­enda á þjónustuna aukin, for­varnir bættar og á­hersla lögð á að veita fjöl­breytta þjónustu sem er miðuð að ó­líkum þörfum,“ segir í stjórnar­sátt­málanum.

Þarf tíma til að setja sig inn í tann­réttingar­málið

Frétta­blaðið fjallaði í síðustu viku um styrki vegna tann­réttingar barna sem hafa ekki hækkað sem skildi á undan­förnum árum. Um 1.800 börn á Ís­landi fá ár­lega tann­réttinga­þjónustu. Kostnaður heimila vegna þessa getur numið á aðra milljón fyrir hvert barn. Eini frá­drátturinn er styrkur upp á 100.000 til 150.000 krónur frá Sjúkra­tryggingum nema í mjög al­var­legum undan­tekningar­til­fellum.

Styrkirnir hafa ekki hækkað í tvo ára­tugi. 150.000 króna styrkur ætti sam­kvæmt verð­lags­hækkunum að vera 340.000 krónur í dag. Að­spurður um af­stöðu stjórnar­sátt­málans til þessara mála segir Willum að hann þurfi enn tíma til að setja sig inn í þau mál.

„En fyrst og fremst er ég sáttur við stjórnar­sátt­málann og hvernig þetta er orðað með heil­brigðis­málin í heild sinni og hversu mikil­vægum sess þeim er gefinn í þessum stjórnar­sátt­mála,“ segir Willum.

„Við erum öll mjög með­vituð um það hvað heilsan er okkur mikil­væg, hún er okkar dýr­mætasta eign. Þannig að styrkur sam­fé­lagsins er sannar­lega mældur í þeim styrk og mér finnst stjórnar­sátt­málinn fanga þetta mjög vel.“

Áhersla á að fjárfesta í og þjónusta fólki

Nokkuð hefur verið rætt um stöðuna í heil­brigðis­geiranum að undan­förnu, ekki síst vegna anna sem fylgja heims­far­aldrinum og skort á starfs­fólki innan geirans. Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítalans, sagði að tak­markandi þátturinn í því hversu margir geti verið inni­liggjandi á spítalanum tak­markist við mönnun.

Fram­kvæmda­stjórn Land­spítalans var ó­sam­mála þeirri full­yrðingu og segir vandann vera fyrst og fremst fjár­magns­vandi. Í því sam­hengi er Willum spurður hvort standi til að auka fjár­magn til stéttarinnar með það í huga að hækka laun þessa fram­línu­starfs­fólks.

„Stjórnar­sátt­málinn segir að við verðum að fjár­festa í fólki og þjónusta fólk þannig að það haldi lengur og betur í sína dýr­mætustu eign,“ segir Willum. „Þá er lykil­at­riði að þeim sem eru að veita þjónustuna líði vel, því þannig verður þjónustan best og þá líður okkur öllum vel.“