Borið hefur á aukningu á þjófnaði úr innrituðum farangri á flugvöllum heimsins. Þetta staðfestir Guðni Sigurðsson, sérfræðingur á samskiptasviði Ice­landair.

Fréttablaðið hefur fengið ábendingar um vaxandi þjófnað úr farangri á aðalflugvellinum á Tenerife.

Ábendingin hljómaði svo að allir ættu að plasta sína tösku eða setja einhvers konar ólar utan um töskurnar til að þjófarnir gætu ekki tekið varninginn svo auðveldlega.

Guðni segir vandamálið ekki beintengt þeim flugvelli.

„Útskýringin gæti einfaldlega verið sú að mikið af Íslendingum er að ferðast til Tenerife,“ segir Guðni en áfangastaðurinn hefur verið vinsæll meðal Íslendinga mörg undanfarin ár, jafnt að sumri sem vetri.

Hann segir mikilvægt að fólk hafi sínar dýrmætustu og nauðsynlegustu eignir, svo sem lyf, meðferðis í handfarangri. „Svo er auðvitað nauðsynlegt að hafa ferðatryggingar í lagi.“

Þá segir Guðni allar varúðarráðstafanir hafa jákvæð áhrif, svo sem það að plasta töskurnar, læsa þeim með lás eða hafa um þær ólar. „Því betra aðgengi sem er að farangrinum, því auðveldara og fljótlegra er að stela úr honum.“