„Hann Leó hefur alveg ofboðslega mikið fyrir hverjum og einum þjófnaði því hann þarf að bakka inn um gluggann og draga þetta dót inn á heimilið,“ segir Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, en kötturinn hennar hefur stundað að koma óumbeðinn með sundgleraugu og leikföng sem lítil börn nota í heitum pottum.

Það sem er merkilegt við þjófnað Leós er að Theodóra og eiginmaður hennar eru með heitan pott hjá sér og þar er fullt af leikföngum fyrir barnabörnin þeirra. En Leó vill ekki sjá þau heldur vill hann annað.
Og ekki eru sundgleraugun úr Salalauginni enda er hún töluverðan spotta frá heimili Theodóru.

„Ég er með GPS á honum og sé hvert hann fer en ekki hvað hann er að gera. Mér finnst eins og þetta sé úr sama leikfangasettinu þó að hann komi alltaf bara inn með eitt í einu. Við erum með leikföng sem hann ætti alveg að geta leikið sér með – sem barnabörnin eiga. En hann hefur bara engan áhuga á því og dregur björg í bú,“ segir Theodóra og getur ekki annað en hlegið.

Theodóra brá á það ráð að auglýsa athæfi kattarins á fésbókarsíðu hverfisins þar sem hún lýsti raunum sínum og lofaði að koma gleraugunum og leikföngunum til eigenda sinna. Þegar Fréttablaðið náði í skottið á henni hafði enginn enn gefið sig fram.

„Þetta eru ein blá sundgleraugu og tvenn bleik og mér finnst þau nýleg. Þannig að ég held að einhver sakni þeirra.“

Theodóra viðurkennir að þrátt fyrir allt sé Leó stórskemmtilegur köttur og frábær karakter, þó að hún sé ekki ánægð með þessa iðju hans að stela af börnum.

„Leó er alveg magnaður. Hann leikur sér með dót og hefur gaman af því að elta bolta og hlaupa um húsið með alls konar uppi í sér. Hann ólst upp með hundum, þó að það sé aðeins einn eftir núna, en hann hefur alltaf leikið sér með hundum,“ segir Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir.