Þýsk stjórnvöld tilkynntu í dag að áætlun lægi fyrir um lögleiðingu kannabis í landinu. Heilbrigðisráðherra Þýskalands Karl Lauterbach afhenti ríkisstjórninni minnisblað sem byggt er á kosningaloforði ríkisstjórnar jafnaðarmanna, græningja og frjálslyndra demókrata sem myndi leyfa fullorðnum einstaklingum að versla allt að 20 til 30 grömm til einkaneyslu.
Ríkisstjórnin íhugar einnig að skattleggja kannabisnotkun og samkvæmt könnun sem birt var á seinasta ári er talið að þýska ríkið myndi þéna 4.7 milljarð evra á skattlagningu kannabis og gæti löglegur iðnaður skapað í kringum 27.000 ný störf.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær kannabis yrði lögleitt en verði tillagan samþykkt þá mun Þýskaland verða annað landið í Evrópu til að lögleiða kannabis, á eftir Möltu. Kannabis hefur verið löglegt í öðrum löndum Evrópu en bæði varsla og neysla þarf að fara fram í þartilgerðum kaffihúsum.
Rúmlega fjórar milljónir Þjóðverja neyddu kannabis á seinasta ári og samkvæmt heilbrigðisráðherra myndi lögleiðing hjálpa við að draga úr áhrifum undirheima. Ekki hafa þó öll ríki Þýskalands tekið vel í tillöguna. Heilbrigðisráðherra Bæjarlands hefur til dæmis varað gegn því að gera Þýskaland að áfangastað fyrir vímuefnatúrista í Evrópu.