Þjóð­verjar ætla sér að taka upp strangar sam­komu­tak­markanir sem beinast sér­stak­lega að óbólu­settum. Angela Merkel, frá­farandi kanslari Þýska­lands, til­kynnti um þetta í dag.

Nýju tak­markanirnar munu þýða að þeim sem eru óbólu­settir gegn kóróna­veirunni verður meinaður að­gangur að nánast allri þjónustu og al­mennings­rými nema til að sækja sér nauð­syn­lega þjónustu. Þá verða einnig settar fjölda­tak­markanir á þann fjölda fólks sem mega koma saman á við­burðum innan­dyra, svo sem á tón­leikum og skemmti­stöðum.

Að sögn Merkel er þetta gert til að bregðast við sí­versnandi smit­tölum og til létta byrðina á heil­brigðis­kerfi landsins komið út á ystu nöf. Þá sagði Merkel að mögu­lega yrði komið á bólu­setningar­skyldu frá og með febrúar að því gefnu að sam­þykki fáist fyrir því frá þýska þinginu, Bundestag.

Merkel fundaði með eftir­manni sínum Olaf Scholz, ný­kjörnum kanslara Þýska­lands, og ríkis­stjórum hinna sex­tán sam­bands­ríkja landsins í dag til að ræða hinar nýju tak­markanir. Þýska­land glímir nú við eina verstu bylgju Co­vid-far­aldursins hingað til en ekki hafa fleiri dáið vegna sjúk­dómsins síðan í febrúar.

„Farið í bólu­setningu, fáið ykkur örvunar­skammt, þannig komumst við út úr þessari krísu,“ segir Scholz í sam­tali við þýska fjöl­miðla.

Um 70 prósent Þjóð­verja er full­bólu­settir, sem er eitt lægsta hlut­fallið í Vestur-Evrópu, og sér­fræðingar hafa varað við því að heil­brigðis­kerfi landsins sé hættu­lega ná­lægt þol­mörkum.

Jens Spahn, frá­farandi heil­brigðis­ráð­herra Þýska­lands, hefur sagt að í vor verði „svo gott sem allir í Þýska­landi orðnir bólu­settir, læknaðir eða dauðir.“