Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, eykur þrýsting á Lyfjastofnun Evrópu (EMA) um að samþykkja bóluefni gegn Covid-19 fyrir jól.

Lyfjastofnun Evrópu á eftir að gefa grænt ljós á þau bóluefni sem nú eru tilbúin en aðeins þau bóluefni sem stofnunin telur örugg og veiti vörn við COVID-19 verður dreift. Stofnunin hefur gefið það út að hún ætli að vera búin að afgreiða umsóknir lyfjafyrirtækjanna fyrir 29. desember en Spahn segist ekki geta beðið svo lengi

„Við viljum að bóluefnið verði samþykkt fyrir jól svo að við getum hafið bólusetningar strax á þessu ári," sagði Spahn í gærkvöld.

Samkvæmt ráðherranum hefur Þýskaland komið upp fleiri en fjögur hundruð bólusetningarmiðstöðum víðs vegar um landið og tíu þúsund læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk er nú þegar tilbúið til að hefja fjöldabólusetningar.

Þjóðverjar vilja fá samþykki fyrir bóluefni Pfizer og BioNTech sem er nú þegar búið að samþykkja í Bretlandi, Bandaríkjunum og í Kanada.

Samkvæmt samkomulagi er Íslandi tryggður sami aðgangur að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og aðildarríkjum sambandsins. Þegar var búið að tryggja aðgengi Íslands að fjórum bóluefnum; Pfizer, Janssen Pharmaceutica, AstraZeneca og Sanofi og GSK. Lyfja­stofn­un hér á landi þarf að samþykkja bólu­efnið eft­ir að Lyfja­stofn­un Evr­ópu hef­ur gert það. Það ætti að taka fá­eina daga að flytja bólu­efnið hingað til lands og hefja bólu­setn­ing­ar þegar til­skil­in leyfi liggja fyr­ir.

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað hratt í Þýskalandi síðustu daga og gripið hefur verið til hertra aðgerða þar í landi fyrir jólin. Alls hafa 22.887 látið lífið vegna Covid-19 en staðfest tilfelli eru 1,3 milljónir í landinu.