Þjóðverjar hafa fallist á að senda skriðdreka sem framleiddir eru í Þýskalandi til Úkraínu. Þýska blaðið Der Spiegel greindi frá þessu í kvöld. Þá er talið að stjórn Þýskalands hafi jafnframt lagt blessun sína við því að önnur ríki, þar á meðal Finnland, Svíþjóð og Pólland, sendi sams konar skriðdreka sem þau hafa keypt frá Þjóðverjum til Úkraínu.

Hávær köll hafa komið frá Úkraínumönnum eftir skriðdrekum og frekari vopnabúnaði frá Vesturlöndum til að verjast áframhaldandi innrás Rússa í landið en Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur verið tregur til. Scholz hefur verið gagnrýndur af leiðtogum nágrannaríkja sinna, meðal annars Póllands, fyrir að stíga hægt niður fæti í þessu máli en nú virðist hann hafa látið undan þrýstingi þeirra.

Búist er við því að formlega verði tilkynning um afhendingu skriðdrekanna á morgun. Um er að ræða svokallaða „hlébarða“ eða Leopard 2-skriðdreka sem framleiddir voru fyrir þýska herinn.

Andríj Jermak, starfsmannastjóri á skrifstofu úkraínska forsetaembættisins, fagnaði fréttunum og skrifaði á Telegram-síðu sinni að skriðdrekarnir eigi eftir að verða „sannkallaður högghnefi lýðræðisins á móti einræðinu úr mýrinni.“