Þýsk yfirvöld hafa tilkynnt um hertar sóttvarnartakmarkanir vegna aukinna smita vegna COVID-19. Angela Merkel, kanslari Þýskalands segir ekki hægt að réttlæta hátíðarhöld þegar gjaldið er hátt í 600 andlát á dag.

Boðað hefur verið til útgöngubanns á landsvísu yfir hátíðarnar og strangt fimm manna samkomubann í heimahúsum. Aðilar sem koma saman í fimm manna hópi mega að mesta lagi vera frá tveimur mismunandi heimilum. Greint er frá þessu í þýskum fjölmiðlum.

Öllum skólum og verslunum verður lokað frá og með 16. desember og verður lokunin í gildi til 10. janúar. Verslanir sem selja nauðsynjavörur, eins og mat og lyf, verða áfram opnar á þessu tímabili. Veitinga- og skemmtistaðir loka og áfengisneysla á almannafæri verður bönnuð. Hárgreiðslustofur, snyrtistofur og húðflúrstofur þurfa einnig að loka og bannað verður að selja flugelda fyrir áramót.

Metfjöldi smita á fimmtudag

Kórónaveiran hefur verið í miklum vexti í Þýskalandi en síðastliðinn fimmtudag, þann 10. desember, greindist metfjöldi smita í landinu, alls 32.734 manns. Sama dag létust 604 af völdum COVID-19 í landinu.

Heilbrigðisráðherra Þýskalands hefur þungar áhyggjur að ástandið muni versna og að veiran fari að dreifa sér stjórnlaust um allt land. Var því ákveðið að boða útgöngubann til að ná aftur stjórn á veirunni.