Á komandi vetri munu Þjóð­verjar þurfa að að­lagast því að fá minna eða jafn­vel ekkert af því jarð­gasi sem þeir hafa hingað til keypt af Rússum og notað í iðnaði og til hús­hitunar. Olaf Scholz kanslari er þegar farinn að búa þjóðina undir hugsan­lega orku­skömmtun.

Spænska blaðið El País segir í ensku vef­út­gáfu sinni frá því að Þjóð­verjar hafi nú þegar gripið til fyrir­byggjandi að­gerða sem snúast um að spara eins mikið og hægt sé, ekki að­eins vegna orku­skortsins heldur líka vegna mikillar hækkunar á verði jarð­efna­elds­neytis. Her­ferð stjórn­valda hafi beinst að því að hvetja fólk til að fara í styttri og kaldari sturtu með það að mark­miði að draga úr orku­notkun um tíu prósent miðað við næst­liðin sumur.

Móttökustöð í Lubmin fyrir Eystrasaltslögn Nordstream-gasleiðslunnar.
Fréttablaðið/Getty

Segir El País frá því að Jens Ker­stan, yfir­maður um­hverfis­sviðs Ham­borgar, hafi fyrir fá­einum dögum í við­tali við þýska blaðið Welt am Sonntag bent á að að­gerðir Þjóð­verja gagn­vart Rússum vegna stríðs­rekstursins í Úkraínu gætu leitt til þess að skammta þyrfti heimilum borgar­búa heitt vatn. Yfir­völd væru einnig að skoða hvort lækka ætti há­marks­hitun hjá einka­aðilum.

Í Dresden hafi hús­næðis­sam­lag eitt til­kynnt um tak­markanir á heitu vatni til 300 af 600 í­búða sinna í sparnaðar­skyni. Sé það í and­stöðu við lög sem heimili ekki slíkar tak­markanir. Vonovia, stærsta fast­eigna­fé­lag Þýska­lands, hafi boðað leigj­endum sínum að ofnar í hús­næði þeirra, sem um hálf milljón manna býr í, muni ekki geta orðið heitari en 17 gráður. Mark­miðið sé að spara 8 prósent í orku­kostnaði.

Þá kemur fram í El País að helmingur heimila í Þýska­landi sé hitaður upp með gasi. Talið hafi verið að skortur á gasi myndi fyrst bitna á iðnaðar­fyrir­tækjum sem noti 35 prósent af þessum orku­gjafa en nú sé óttast að tíma­bundin niður­skurður á gass­treymi um Nord Stream 1 lögnina og lokun vegna við­halds milli 11. og 21. júlí gæti orðið varan­leg. Síðast­liðinn föstu­dag hafi gastankar Þjóð­verja verið fylltir upp að 63,2 prósentum af því sem þeir geti tekið. Stjórn­völd stefni að því að þeir verði alveg fullir í haust. Það muni duga í tvo og hálfan vetrar­mánuð í venju­legu ár­ferði.