Þjóðvegurinn er lokaður vegna alvarlegs umferðarslyss sem varð skammt frá bænum Viðborðsseli í Hornafirði.
Ökumaður keyrði á gangandi vegfaranda og fékk lögreglan tilkynningu um slysið um klukkan 17:30 í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á Suðurlandi birti á Facebook rétt í þessu.
Lögregla og sjúkraflutningamenn eru nú að vinna á vettvangi ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa og tæknideildarmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Vegurinn er því lokaður allri umferð en bílum verður hleypt fram hjá vettvangi með umferðarstjórnun fljótlega.
Rannsókn mun taka töluverðan tíma að sögn lögreglu og má því búast við umferðartöfum á vettvangi fram eftir kvöldi.