Þjóðveginum hefur verið lokað milli Núpsstaðar og Hafnar vegna ofsaveðurs sem geisar þar nú. Björgunarsveitin mannar nú eftirlitsstaði á vegarkaflanum en engin slys hafa orðið á fólki í storminum í dag að sögn Davíðs Má Bjarna­sonar, upp­lýs­inga­full­trúa Landsbjargar. „Sem ern nú hið besta mál,“ bætti hann við.

Björgunarsveitir hafa þó haft í nógu að snúast og hafa útköll dreifst nokkuð jafn yfir daginn að sögn Davíðs. „Í morgun var þetta mikið á Norðausturlandi og þar í kring, svo um miðbiks dags var mikið af útköllum í Árnessýslu og á þeim slóðum og um kvöldmatarleytið komu nokkur útköll af höfuðborgarsvæðinu, aðallega í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.“

Foktjón og fastir bílar

Davíð segir flest útköllin hafa verið vegna foktjóns og hafi þar helst verið á ferð þakklæðningar, byggingarefni og lausamunir. „Síðan hef­ur tals­vert af fólki á bíl­um lent í vand­ræðum út af færð, aðallega vegna þess að það hefur fest bílana en í einhverjum tilfellum vegna þess að það hefur misst bílana út af veginum.“ Lélegt skyggni valdi því að erfitt geti reynst fyrir fólk að halda sér á veginum þrátt fyrir aðgát.

Villtust í lélegu skyggni

Í kringum hádegi í dag voru björgunarsveitir kallaðar út vegna tveggja ferðamanna sem höfðu villst. „Þau áttuðuð sig illa á staðarháttum og sambandið þeirra var slæmt svo það reyndist svolítið erfitt að finna þau,“ segir Davíð.

„Þau fundust skömmu síðar við Hlöðufell en þá kom í ljós að þau höfðu misst eitt dekk af bílnum og við það bílinn út af veginum.“ Fólkið var í kjölfarið flutt í bæinn og varð engum meint af.

„Upp úr átta róaðist mikið í verkefnum björgunarsveitanna og þetta virðist vera orðið mun rólegra,“ segir Davíð. Hann segir björgunarsveitina standa vaktina á meðan óveðrið geisar og minnir fólk á að huga að færð á vegum. „Aðal skilaboð þessa dags er að veturinn er kominn og mikilvægt að fylgjast með veðurspá sérstaklega ef fólk ætlar sér í ferðalag.“