Þjóðvarðarliðið hefur verið ræst út í sautján fylkjum víða um Bandaríkin vegna mótmæla gegn kynþáttamisrétti.

Óeirðir hafa brotist út á nokkrum stöðum; eldar hafa kviknað og búðir rændar.

Ljóst er að fólk sé reitt vegna dauða George Floyd, sem kæfður var til dauða af lögregluþjóni síðastliðinn mánudag.

Lögregluþjónninn hefur nú verið ákærður fyrir morð en það er þó ekki nóg. Bandaríkjamenn krefjast réttlætis; ekki lengur er hægt að líta undan kerfisbundnu kynþáttamisrétti sem á sér stað í landinu.

Meirihluti mótmælenda mótmæla friðsamlega og hafa blaðamenn á götunni greint frá því að ofbeldi hafi aukist eftir að þjóðvarðarliðið var ræst út. Lögregla og liðsmenn þjóðvarðarliðsins hafa skotið gúmmíkúlum í átt að mótmælendum og kastað táragasi í átt að blaðamönnum.

Nokkrar lögreglusveitir hafa þó ákveðið að taka þátt í mótmælunum í stað þess að fara gegn mótmælendum að því er fram kemur á vef Forbes.

Linda Tirado, fréttaljósmyndari og pistlahöfundur fyrir The Guardian, fékk skot í augað en hún var að ljósmynda mótmælin í Minneapolis.

Sænski blaðamaðurinn Nina Svanberg, sem starfar fyrir Expressen, greindi frá því að lögreglan hafi skotið í átt að henni þrátt fyrir að þeir vissu að hún væri blaðamaður.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þakkað þjóðvarðarliðinu fyrir störf sín. Hann telur Antifa hreyfinguna, sem berst gegn fasisma í Bandaríkjunum, standa að baki óeirðunum.

Svo virðist sem Trump sé staðráðinn í hunsa kröfur mótmælenda. Forsetinn sagði að mót­mælendur sem tóku sér stöðu fyrir utan Hvíta húsið í gær hefðu mætt „grimmum hundum“ hefðu þeir komist yfir girðingu hússins. Þá full­yrðir hann einnig að mót­mælendurnir tengist ekki Geor­ge Floyd með neinum hætti.

Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforeta, sagði í spjalli við CNN að málið snerist ekki um kerfisbundið ofbeldi gegn svörtu fólki heldur væru þetta nokkrir slæmir lögreglumenn sem ættu að sjálfsögðu ekki að starfa innan lögreglunnar.

Bretar styðja baráttuna

Mótmæli fara einnig fram í London til stuðnings baráttu svartra manna í Bandaríkjunum.

Bretar af afrískum og karabískum ættum segjast finna mikið til með svörtum Bandaríkjamönnum. Þeir segja klárt mál að kynþáttamisrétti eigi sér enn stað.

„Þetta óréttlæti má ekki fara fram,“ sagði mótmælandi í spjalli við MSNBC.