Alda Vigdís Skarphéðinsdóttir, forritari sem býr í Þýskalandi, hefur lagt fram kæru á hendur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna takmarkana Þjóðskrár Íslands á breyttri kynskráningu. Alda ætlaði að leiðrétta skráningu á kyni og nafni sínu til Þjóðskrár Íslands í gegnum form á vef stofnunarinnar í september. Eftir innskráningu kom upp eftirfarandi texti í stað eyðublaðsins:

Í fyrstu hélt Alda að um væri að ræða forritunarvillu á vefnum en hvergi kemur fram í nýjum lögum um kynrænt sjálfræði, sem voru samþykkt á Alþingi í byrjun sumars, að einstaklingur verði að vera með lögheimili á Íslandi. Alda sendi því fyrirspurn á Þjóðskrá og fékk þau svör að beiðni hennar væri vísuð frá vegna þess að hún væri ekki lögheimili á Íslandi.

„Einstaklingar sem ekki hafa skráð lögheimili á Íslandi og fengið hafa leiðréttingu á kyni sínu í búsetulandi, geta óskað þess að Þjóðskrá Íslands skrái breytinguna í þjóðskrá sbr. 10. gr. laga um kynrænt sjálfræði. Í ákvæðinu kemur fram að úrskurður erlends dómstóls eða skráning erlends lögbærs yfirvalds á breyttri skráningu kyns og breyttu nafni einstaklings njóti fullrar viðurkenningar á Íslandi,“ segir í svari sem Alda fékk frá Þjóðskrá.

Þetta skapar ákveðna pattstöðu vegna þess að Alda býr í Þýskalandi þar sem ekki er gert ráð fyrir að erlendir ríkisborgarar fái leiðrétta skráningu á kyni og nafni fyrir erlendra borgara eftir að ný persónuskilríki hafa verið gefin út. Þjóðskrá ber hins vegar ábyrgð á útgáfu vegabréfa og vottorða um slíkar breytingar.

„Ég hef lítinn skilning á því hvernig hægt er að ætlast til þess að erlent stjórnvald eða  dómstóll hafi nokkuð um það að segja hvaða nafn og kyn sé skráð í íslensk vegabréf,“ segir Alda.

Alvarlegt mál ef Þjóðskrá Íslands hundsar lagabreytingar

Öldu þótti það skrýtið enda kemur þetta hvergi fram í nýju lögunum um kynrænt sjálfræði.

„Staðreynd málsins er sú að þau lög sem eru í gildi í dag, lög um kynrænt sjálfræði (80/2019), tilgreina ekki þessar eða neinar aðrar takmarkanir á búsetu eða kröfur um fylgigögn og ná nýju lögin til allra einstaklinga í Þjóðskrá skv. 1. mgr. 4. gr, þar sem sérstaklega er tekið fram að „sérhver einstaklingur sem náð hefur 18 ára aldri hefur rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá“,“ skrifar Alda í kæru sinni og bendir á að engar slíkar takmarkanir eru í núgildandi lögum.

„Það er alvarlegt mál ef Þjóðskrá Íslands hundsar þær lagabreytingar sem hafa orðið með því að fara með þessum hætti út fyrir valdsvið sitt og heldur þannig áfram að vinna eftir þeim kvöðum sem hafa verið felldar niður um búsetu á Íslandi eða skil á gögnum erlendis frá,“ segir Alda.

Alda fékk þau svör að um væri að ræða reglu um persónu- erfða- og sifjarétt sem væri byggt á heimilisfestilögum eða heimkynnisreglu (domicil princip). Væri það ástæðan fyrir því að hún fengi ekki kyn og nafnabreytingu.

„Þótt ekki sé getið um þessa meginreglu í lögunum sjálfum gildir hún eigi að síður,“ stendur í tölvupósti sem Alda fékk frá Stjórnsýslusviði. Heimkynnisreglan er oft notuð til að tryggja að meðferð forræðis- og hjúskaparmála að sögn Öldu en hvergi er minnst á þessa heimkynnisreglu í lögum um kynrænt sjálfræði.

Þarf ekki mikið til að ýta fólki fram af brúninni

Alda segir málið hafa áhrif á heilsu hennar.

„Ég á erfitt með að tjá mig um það hvernig mér líður yfir þessu öllu en auðvitað líður mér ekki vel. Eins og er, þá hef ég þurft að gíra mig upp til að hugsa rökrænt um þetta allt, gera mitt besta til að vinna í málinu og hef nánast verið á sjálfstýringu en ég veit að það mun ekki endast lengi. Þar sem ég vinn sem forritari, þá er andlega heilsan mikilvæg og ef ég hef hana ekki, þá missi ég tekjurnar líka,“ segir Alda í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að ákvörðun hennar um að breyta skráningu á kyni og nafni sé engan veginn skyndiákvörðun.

„Ég er 34 ára, hef svarað þessu nafni núna í vel á þriðja ár og þegar einhver þjáist af kynama (e. gender dysphoria) eins og ég, þá er margsannað að svona hindranir draga mun meira úr lífsgæðum og andlegri heilsu heldur en flest fólk myndi halda og það þarf ekki mikið til að ýta fólki sem á það alls ekki skilið fram af brúninni,“ segir Alda.

Pattstaða sem ætti ekki að koma upp

„Besta ráðið við mínum kynama er að getað í það minnsta gleymt því, þó það væri ekki nema í smá stund að ég sé trans, að ég lendi ekki í mismunun af hálfu stjórnvalda eða að það sé litið á mig sem aðskotahlut. Það er eitt að vera með rangt nafn í persónuskilríkjum og annað og meira að þurfa að standa í þessu ömurlega stappi gagnvart íslenska ríkinu,“ segir Alda.

Alda segir að slík pattstaða ætti alls ekki að þurfa að koma upp þar sem þessi regla var tekin úr lagabókstafnum af ástæðu. Nýju lögin séu skýr en stjórnsýslan á Íslandi sé með þessu máli að setja stólinn fyrir dyrnar í einu stærsta framfaraskrefi í lífi Öldu. Hún hefur áhyggjur af því að þetta muni einnig koma fyrir aðra ef ekkert er gert.

Vissu ekki hvaða ráðuneyti ætti að taka við kærunni

Alda segir málið vera fálmkennt og að lögfræðingar stjórnsýslusviðs Þjóðskrár vissu ekki hvaða ráðuneyti ætti að taka við kærunni í upphafi. Hún hafi fengið leiðréttingu eftir að hún sendi kæru á dómsmálaráðuneytið samkvæmt þeirra leiðbeiningum. Þá kom í ljós að framkvæmd laganna væri á ábyrgð samgöngu-og sveitastjórnarráðuneytis.