Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri sagði á Twitter-aðgangi sínum frá því að 2148 manns hefðu ákveðið að ganga í Þjóðkirkjuna í ár. Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar svaraði því til að framsetningin væri „spin á fækkun upp á 403 hausa.“

Sóknarprestur Glerárkirkju, Sindri Geir Óskarsson, hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum undanfarið, en hann er virkur á samfélagsmiðlunum Tiktok og Twitter og talar þar um kirkjunnar málefni í bland við aðra hluti.

Í dag deildi hann færslu á Twitter þar sem hann vísaði í félagatal kirkjunnar, og sagði 4699 kennitölur hafa fallið úr félagatalinu og þar helming vegna andláta. Hann sagði 4185 nýjar kennitölur hafa síðan bæst við félagatal Þjóðkirkjunnar og þar af 2037 börn fædd árið 2021. Sindri Geir las úr tölunum að 2148 manns hafi því valið að ganga í þjóðkirkjuna í ár. „Það er ánægjulegt,“ bætti Sindri við.

Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdarstjóri Siðmenntar.
Fréttablaðið/Ernir

Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar svaraði um hæl að hann vildi gefa Sindra „kredit fyrir þetta spin á fækkun upp á 403 hausa.“ Sindri Geir tók létt í gagnrýnina og svaraði í gamansömum tón að tölfræði snerist bara um framsetningu og sjónarhorn.

Siggeir sagði frá því í dag að félagatal Siðmenntar hefði bætt við sig 579 manns á árinu, eða 14,3 prósentum.

Þann 11. nóvember flutti Fréttablaðið fréttir af því að skráningu í Þjóðkirkjuna hefði á þeim tímapunkti fækkað um 231 síðan 1. desember 2020, en fjölgun hafi verið mest í röðum Siðmenntar, um 471.