Agnes M. Sigurðardóttir biskup leggur fram tillögu á Kirkjuþingi sem hefst í dag um að gerð verði könnun um viðhorf þjóðarinnar til þjóðkirkjunnar. Tillaga Agnesar er byggð á vinnu starfshóps um samskipta-, ímyndar- og kynningarmál þjóðkirkjunnar.

„Veruleiki þjóðkirkjunnar er breyttur að því leyti að við erum á frjálsum markaði og þar gildir ímyndin þín og að þú sért í kynningu og aðrir viti hver þú ert,“ segir í greinargerð starfshópsins, sem kveður mikilvægt að greint verði hvaða leiðir séu bestar „til að boða fagnaðarerindið“.

Könnunin sögð þurfa að vera unnin í sátt innan kirkjunnar

Til að fá sem raunhæfasta niðurstöðu er könnunin sögð þurfa að vera unnin í sátt innan kirkjunnar. „Það þyrfti að vinna hana í samráði við Kirkjuþing og prestasamfélagið og því er mikilvægt að umræða fari fram um hana á Kirkjuþingi,“ er undirstrikað í greinargerð starfshópsins. „Mikilvægt er að við séum tilbúin til þess að taka mark á henni, sama hverjar niðurstöðurnar verða.“

Sérstaklega er ætlunin að styrkja notkun kirkjufólks á samfélagsmiðlum. Mikilvægt er sagt að sett séu viðmið og leiðbeiningar um miðlana. „Dæmi um það er að setja fram hvað miðlar kirkjunnar mega líka við (e. like), hvort þeir eigi að fylgja einstökum miðlum (e. follow), og hvort þeir megi deila efni frá öðrum,“ segir starfshópurinn.

5 milljóna reikningur frá Gallup

Verkefninu fylgir ýmis kostnaður. Meðal annars á að fjölga stöðugildum á samskiptasviði Biskupsstofu úr einu og hálfu í þrjú og er það stærsti einstaka kostnaðarliðurinn; 16,5 milljónir króna árlega. Til viðbótar er tæplega 5 milljóna króna reikningur frá Gallup vegna viðhorfskönnunar sem gera á bæði meðal almennings og fjögur hundruð starfsmanna kirkjunnar.

„Við þurfum að spyrja þjóðina hvað hún vill til þess að við getum þjónustað hana, í stað þess að okkar þjónusta beinist að því sem okkur langar að þjóðin sækist eftir.“

Í umsögn um tillögu biskups kveðst Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, sakna þess að hvorki í nýsamþykktu skipuriti né í nokkru máli sem liggi fyrir Kirkjuþingi skuli vera minnst á að kirkjan syngi. „Sú fjöldahreyfing sem þjónar kirkjunni með söng undir stjórn vel menntaðra kirkjutónlistarmanna er oftar en ekki hinn trúi kjarni safnaðarins," segir í umsögn Margrétar.