Kirkjuráð Þjóðkirkjunnar leggst gegn áframhaldandi banni við netalögn til silungsveiða í Faxaflóa. Er það vegna kirkjujarðarinnar Borgar á Mýrum, þar sem sóknarpresturinn og ábúandinn Þorbjörn Hlynur Árnason vill halda veiðihlunnindum jarðarinnar.

„Þetta eru réttindi sem er eðlilegt að viðhalda,“ segir Þorbjörn. Hann segir að silungur hafi ekki verið veiddur í mjög stórum stíl á Borg en rétturinn hafi verið nýttur þegar veiðin var leyfð.Fiskistofa hefur sett tímabundið bann við netaveiði í Faxaflóa í nokkur skipti. Talið er að lax festist í silunganetunum og bleikjustofninn á svæðinu hafi minnkað.

„Þeir festast ekki í þeim netum sem leyfð eru núna. Ég trúi því ekki,“ segir Þorbjörn aðspurður um þessa röksemd.

Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um bann við netaveiði silungs í Faxaflóa. Málið sé unnið samhliða hugsanlegu banni í Skjálfanda í Þingeyjarsýslum.

Þar hefur ekki verið sett bann áður og eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur sveitarfélagið Norðurþing hótað málsóknum verði af því.

„Það liggur fyrir ósk frá Sambandi borgfirskra veiðifélaga um að bann verði aftur sett á í Faxaflóa og það er til meðferðar hjá okkur,“ segir Guðni. Ef slíkt bann verður sett á yrði það alltaf tímabundið og metið út frá stofnstærðum hverju sinni.

„Við bjóðum þeim sem málið kann að varða að skila inn andmælum. Það eru nokkrir sem nýta þann rétt sinn. Það er ekki gefið að orðið verði við þessari ósk,“ segir hann.

Veiðimálastjóri bannaði fyrst netaveiði göngusilungs í Faxaflóa árið 2004. Eftir stjórnsýslukærur landeigenda úrskurðaði umboðsmaður Alþingis að þá ákvörðun hefði skort lagastoð. Reglugerðir sem banna veiðina hafa verið settar á tveggja ára fresti frá árinu 2009.

Spurður um árangurinn af banninu segir Guðni Fiskistofu ekki mæla hann. „Veiðifélögin hafa ekki lagt fram niðurstöður rannsókna en bent er á veiðitölur.“

Sömu röksemdir eru uppi vegna Skjálfanda en þar hafa veiðifélögin í Laxá í Aðaldal, Mýrarkvísl, Reykjadalsá og Eyvindarlæk óskað eftir banni á netaveiði vegna lítillar veiði í ánum.